Breiðablik gerði út af við Stjörnuna á ellefu mínútum

Damir Muminovic og Anton Ari Einarsson hjá Breiðabliki verjast Ísaki …
Damir Muminovic og Anton Ari Einarsson hjá Breiðabliki verjast Ísaki Andra Sigurgeirssyni úr Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Íslandsmeistarar Breiðabliks höfðu betur gegn Stjörnunni, 2:0, þegar liðin áttust við í fimmtu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.

Breiðablik hóf leikinn af gífurlegum krafti og var þegar komið með tveggja marka forystu eftir aðeins ellefu mínútna leik.

Fyrst skoraði Gísli Eyjólfsson á áttundu mínútu eftir góða sendingu Patriks Johannesen frá vinstri, Gísli fór illa með varnarmann Stjörnunnar með frábærri fyrstu snertingu og renndi svo boltanum niður í hornið með skoti af vítateigslínu.

Þremur mínútum síðar náði Jason Daði Svanþórsson að koma boltanum fyrir frá hægri áður en hann fór aftur fyrir endamörk, fyrirgjöfin rataði beint á kollinn á Stefáni Inga Sigurðarsyni sem skallaði boltann af krafti í netið af stuttu færi.

Um var að ræða hans sjötta deildarmark í sumar í aðeins öðrum byrjunarliðsleiknum.

Staðan þar með orðin 2:0 og Blikar búnir að skora úr báðum marktilraunum sínum.

Þrátt fyrir þessa blautu tusku í andlit Stjörnumanna fundu þeir taktinn og hófu að ógna marki gestanna.

Á 20. mínútu átti Eggert Aron Guðmundsson frábæra fyrirgjöf á Örvar Loga Örvarsson, sem kom á ferðinni og skallaði að marki en Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks varði frábærlega til hliðar.

Tveimur mínútum síðar lék Eggert Aron á hvern Blikann á fætur öðrum inni í vítateig, náði loks lúmsku vinstri fótar skoti niður í nærhornið en Anton Ari var eldsnöggur niður og varði aftur glæsilega til hliðar.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Stefán Ingi kjörið tækifæri til þess að skora þriðja mark Blika. Gísli lyfti þá boltanum glæsilega inn fyrir, Stefán Ingi gerði afar vel í að halda Heiðar Ægissyni frá sér en skot hans af stuttu færi fór framhjá nærstönginni.

Staðan var því 2:0 í leikhléi, Breiðabliki í vil.

Strax í upphafi síðari hálfleiks komst hinn 16 ára gamli Kjartan Már Kjartansson, kantmaður Stjörnunnar, í færi hægra megin í vítateignum en skot hans úr fínni stöðu var slakt og fór yfir markið.

Eftir tæplega klukutíma leik gerði varamaðurinn Ágúst Eðvald Hlynsson sig líklegan fyrir Breiðablik þegar hann tók stórhættulega aukaspyrnu sem Árni Snær Ólafsson varði naumlega í þverslána og yfir markið.

Skömmu síðar kom Hilmar Árni Halldórsson inn á í liði Stjörnunnar. Við það hresstust heimamenn sóknarlega en náðu þó ekki að skapa sér nein opin færi þó nokkur hættuleg skot fyrir utan vítateig hafi litið dagsins ljós.

Þau fóru hins vegar ýmist í varnarmenn Breiðabliks eða í öruggt fang Antons Ara.

Jason Daði og varamaðurinn Klæmint Olsen fengu báðir frábær tækifæri til þess að skora þriðja mark gestanna í uppbótartíma en Jason Daði skaut framhjá og Klæmint skaut beint á Árna Snæ.

Skynsamir Blikar sigldu að lokum sterkum tveggja marka sigri í höfn, sínum þriðja í deildinni í sumar, sem kemur liðinu upp í fjórða sæti með níu stig.

Stjarnan heldur kyrru fyrir í 11. og næstneðsta sæti með 3 stig.

Stjarnan 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu Hún er hreinsuð frá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert