Þriggja marka sigur í Eyjum

Birta Georgsdóttir kemur Breiðabliki yfir á leiknum í Vestmannaeyjum í …
Birta Georgsdóttir kemur Breiðabliki yfir á leiknum í Vestmannaeyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Breiðablik vann ÍBV, 3:0, í fyrsta leik kvöldsins í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.

Birta Georgsdóttir var í stóru hlutverki hjá Blikum en hún skoraði tvö fyrstu mörkin á 14. og 39. mínútu. Katrín Ásbjörnsdóttir innsiglaði síðan sigurinn með marki á 90. mínútu.

Breiðablik er þá komið með 16 stig í öðru sætinu, þremur stigum á eftir Val. ÍBV er áfram í næstneðsta sætinu með sjö stig.

Það voru Blikar sem byrjuðu með boltann en það voru Eyjakonur sem áttu fyrsta færið. Það kom á fyrstu mínútu þegar Olga átti skalla að marki.

Bæði lið sættu nokkrum sinnum færis en það var á 14. mínútu sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Þar var að verki Birta Georgsdóttir sem þrumaði honum inn eftir stoðsendingu frá Andreu Rut. Þetta var, því miður fyrir þær hvítklæddu, aðeins byrjunin á þeim góða leik sem Birta átti í kvöld. Staðan var þá orðin 0:1 fyrir Breiðablik. 

Eftir markið róaðist leikurinn talsvert. Eyjakonur áttu nokkur færi sem þær náðu ekki að nýta áður en að Birta Georgsdóttir var aftur að verki á 39. mínútu eftir aðra stoðsendingu hjá Andreu Rut. Frábært framtak hjá Birtu sem sólaði varnarmenn ÍBV, gaf á Andreu og fékk hann aftur og renndi honum snyrtilega fram hjá Guðnýju í markinu.  

Mikil gæði í liði Breiðabliks sem skilaði þeim tveimur mörkum í fyrri hálfleik. ÍBV byrjuðu leikinn af krafti og voru óheppnar að vera ekki búnar að fá meira út úr fyrri hálfleiknum en raun bar vitni. Staðan í hálfleik var 0:2 fyrir Breiðablik. 

Markmenn liðanna gerðu vel í byrjun seinni hálfleiks þegar bæði lið sóttu hart að marki. Þóra Björg, miðjumaður ÍBV, var nálægt því að koma boltanum inn en Telma Ívarsdóttir í marki Breiðabliks var vel á varðbergi og kom boltanum frá. 

Guðný Geirsdóttir, markmaður ÍBV, átti svo tvær þrusu vörslur þegar Blikar gerðu sig líklegar að bæta í forystuna.  

Það var á 76. mínútu sem að umdeilt atvik átti sér stað en aðstoðardómarinn flaggaði þá Viktoriju Zeicikova rangstæða eftir að hún kom boltanum í mark Blika. Stór ákvörðun hjá aðstoðardómaranum þarna sem kostaði ÍBV mark. Staðan var enn þá 0:2 Blikum í vil. 

Á 83. mínútu munaði engu að Birta Georgsdóttir myndi bæta enn einu markinu við og setja þrennu en Guðný Geirsdóttir var ekki tilbúin að gefa henni það og varði boltann vel.  

Mínútu seinna ákvað Ásmundur þjálfari að setja Katrínu Ásbjörnsdóttir inn á. Það reyndist liðinu lukkuspor því það tók Katrínu ekki nema fimm mínútur að skora.

Á 90. mínútu átti Clara Sigurðardóttir stoðsendingu inn á Katrínu sem lét þetta líta út fyrir að vera auðvelt með því að stýra boltanum ákveðið í fjærhornið. Var þetta loka atvikið í þessum leik, lokatölur voru 0:3 fyrir Breiðablik og þær komnar í afar vænlega stöðu. 

Birta Georgsdóttir átti algjöran stórleik á Hásteinsvelli í kvöld og virtist njóta sín í þessum baráttuleik. Birta kom inn í liðið eftir að hafa verið á bekknum í síðasta leik á móti Stjörnunni og ætlaði greinilega að nýta það tækifæri sem henni var gefið.  

Blikar hafa verið að skora að meðaltali tvö mörk í leik það sem af er sumri og héldu þeirri stefnu áfram á móti ÍBV í dag. 

Einhver markaþurrð virðist hins vegar vera hjá ÍBV-liðinu sem virðist eiga erfitt með að klára færin sín en liðið hefur aðeins skorað fimm mörk í sumar. Mikilvægt er fyrir þær að finna skotskóna því liðið etur kappi við FH í bikarleik næsta fimmtudag. 

Breiðablik sækir Þrótt Reykjavík heim í bikarnum sama dag, fimmtudaginn 15. júní næstkomandi. 

ÍBV 0:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Katrín Ásbjörnsdóttir (Breiðablik) skorar 3:0. Clara með stoðsendingu á Katrínu sem að setur hann í hornið fjær. Vel gert.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert