Blikar gengu frá Buducnost í fyrri hálfleik

Viktor Karl Einarsson fagnar eftir að hafa komið Blikum yfir …
Viktor Karl Einarsson fagnar eftir að hafa komið Blikum yfir á 5. mínútu. mbl.is/Eggert

Breiðablik er komið í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar karla í knattspyrnu eftir afar sannfærandi sigur á Buducnost frá Svartjallalandi, 5:0, í úrslitaleik forkeppninnar á Kópavogsvelli í kvöld. 

Í fyrstu umferðinni mætir Breiðablik írska liðinu Shamrock Rovers. 

Til að komast í úrslitaleikinn vann Breiðablik Tre Penne frá San Marínó 7:1 á Kópa­vogs­velli á þriðju­dag­inn var. Sam­dæg­urs sló Buducnost út Atlétic d'Escaldes, meist­aralið Andorra, með 3:0-sigri.

Fyrir leik þekktu Blikar vel til Buducnost eft­ir að hafa unnið ein­vígi liðanna í Sam­bands­deild Evr­ópu á síðasta ári, 3:2 sam­an­lagt, eft­ir mik­inn has­ar í lok fyrri leiks liðanna á Kópa­vogs­velli. Leikurinn í kvöld var aftur á móti mun rólegri.

Fjögur mörk í fyrri hálfleik

Svartfellingarnir sáu aldrei til sólar en strax á fimmtu mínútu kom Viktor Karl Einarsson Blikum yfir. Þá var misskilningur í vörn Buducnost sem endaði með því að Kristinn Steindórsson fékk boltann, þræddi síðar Viktor Karl í gegn og hann lagði boltann í hornið fjær af mikilli yfirvegun.

Blikar héldu áfram að sækja næstu mínútur og á 22. mínútu tvöfaldaði Stefán Ingi Sigurðarson forystu Kópavogsliðið. Þá átti Gísli Eyjólfsson misheppnaða sendingu á Stefán, en varnarmaður Buducnost misreiknaði sendinguna enn meira og hún rataði í gegnum klof hans á Stefán, sem líkt og Viktor Karl lagði boltann í fjær, 2:0. 

Sex mínútum síðar var komið að Gísla sjálfum en þá fékk hann boltann utan vítateigs og smellti honum í stöng og inn, glæsilegt mark en enn og aftur var varnarleikur Buducnost í molum. 

Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson skoraði svo fjórða  mark Blika á 33. mínútu þegar hann fékk sendingu frá Stefáni Inga, tók snertingu framhjá Zvonko Ceklic í vörn Buducnost og smellti síðan boltanum í vinstra hornið niðri. 

Blikar fóru því með afar sannfærandi 4:0-forystu til búningsklefa. 

Varamaðurinn Jason Daði Svanþórsson bætti svo við fimmta marki Kópavogsliðsins á 74. mínútu, en þá var enn og aftur bras í varnarleik Buducnost. 

Að lokum unnu Blikar sannfærandi 5:0-sigur og fara til Írlands og mæta írsku meisturunum Shamrock Rovers í fyrstu umferðinni. Ef Breiðablik vinnur Shamrock mætir liðið dönsku meisturunum FC Köbenhavn í annarri umferð. 

Breiðablik 5:0 Buducnost opna loka
90. mín. Tveimur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert