Vorkenni móður hans meira

Óskar Hrafn Þorvaldsson mætir syni sínum eftir helgi.
Óskar Hrafn Þorvaldsson mætir syni sínum eftir helgi. Ljósmynd/Inpho Photography

„Ég er þokkalega sáttur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins á ÍBV í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Breiðablik skoraði öll þrjú mörkin í fyrri hálfleik og sigldi nokkuð öruggum sigri í höfn í seinni hálfleik, þrátt fyrir að ÍBV hafi minnkað muninn snemma í hálfleiknum.

„Ég hefði viljað sjá okkur klára þetta í fyrri hálfleik og fara betur með færin og stöðurnar sem við fengum á síðasta þriðjungi. Ég ætla samt ekki að kvarta yfir því að vinna ÍBV 3:1,“ sagði Óskar.

Liðsmenn Breiðabliks fagna í kvöld.
Liðsmenn Breiðabliks fagna í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Hann var nokkuð rólegur allan leikinn, en á sama tíma meðvitaður um þær hættur sem geta skapast gegn ÍBV.

„Seinni hlutann af leiknum fannst mér þeir alltaf geta verið hættulegir. Þeir eru með mikinn hraða fram á við og eru grimmir í teignum. Þeir koma sér í stöður þar sem þeir geta verið hættulegir. Þeir eiga alltaf áhlaup. Ég var ekki fullkomlega rólegur, en mér leið sæmilega.“

Óskar gerði þrjár breytingar á liði sínu frá 2:1-sigrinum á Shamrock Rovers á þriðjudag. Álagið er mikið á leikmönnum Breiðabliks um þessar mundir, enda í Evrópuleikjum meðfram leikjum í deildinni.

Davíð Ingvarsson og Halldór Jón Sigurður Þórðarson eigast við í …
Davíð Ingvarsson og Halldór Jón Sigurður Þórðarson eigast við í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Það er skemmtilegt verkefni og eitthvað sem maður þarf að leggja höfuðið í bleyti til að stýra þessu þannig svo að sem flestir séu sem ferskastir alltaf. Það er erfitt að gera sex breytingar á milli leikja viku eftir viku. Á einhverjum tímapunkti þarf að finna jafnvægi í því. Hingað til hefur þetta gengið fínt. Menn eru að taka vel á móti þessu álagi,“ sagði Óskar. 

Næsti leikur Breiðabliks er heimaleikur gegn FC Kaupmannahöfn frá Danmörku næstkomandi þriðjudag í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu. Er um fyrri leik liðanna í einvíginu að ræða. „Við erum komnir þangað og þurfum að halda áfram að undirbúa þann leik. Hausinn er kominn þangað,“ sagði Óskar.

Á meðal leikmanna FCK er framherjinn Orri Steinn Óskarsson, sonur Óskars Hrafns. Þjálfarinn viðurkennir að það verður erfitt að mæta syninum, en enn erfiðara fyrir móður Orra, eiginkonu Óskars.

Orri Steinn Óskarsson í leik með FCK.
Orri Steinn Óskarsson í leik með FCK. AFP/Bo Amstrup

„Auðvitað er fótboltinn þannig að þú ræður ekki hverjum þú mætir og hverjir eru í liði mótherjanna. Það er ekki draumaverkefnið að mæta syninum. Ég vorkenni móður hans, Laufeyju konunni minni, meira. Hún þarf að sitja upp í stúku og halda með báðum liðum. Það má ekki gera þetta að einvígi míns og hans. Hvorugur okkar er í aðalhlutverki,“ sagði hann.

Orri var að láni hjá SönderjyskE í dönsku B-deildinni á síðustu leiktíð, en hann vonast til að leikmaðurinn fari að berjast um sæti Kaupmannahafnarliðinu.

„Hann verður í hóp á morgun og hann þarf að sanna sig. Hann þarf að klóra sig inn í hlutverk í þessu liði. Vonandi verður hlutverkið hans sem stærst, en það er ómögulegt að segja,“ sagði Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert