Hörmulegur fyrri hálfleikur Blika í Bosníu

Gísli Eyjólfsson skoraði annað mark Blika.
Gísli Eyjólfsson skoraði annað mark Blika. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik mátti þola stórt tap fyr­ir Zr­injski frá Bosn­íu, 6:2, í þriðju um­ferð undankeppni Evr­ópu­deild­ar karla í knatt­spyrnu í Mostar í Bosníu í kvöld. 

Þetta var fyrri leikur liðanna og þau mætast aftur á Kópavogsvelli næsta fimmtudag. Allt bendir til þess að Zrinjski komist í umspilsumferð Evrópudeildar og sé þar með öruggt með sæti í riðlakeppni en Breiðablik fari í umspilsumferð Sambandsdeildarinnar.

Útlitið var fljótt svart en strax á ann­arri mín­útu leiks­ins kom Tom­islav Kis Zr­injski yfir. Þá fékk hann bolt­ann frá Mario Cuze rétt utan teigs og lagði bolt­ann í netið, 1:0. 

Zr­injski stjórnaði fyrri hálfleikn­um frá A-Ö og á 21. mín­útu, eft­ir ótal færi heima­manna, tvö­faldaði Matija Malek­in­usic for­ystu Zr­injski þegar hann fylgdi á eft­ir skalla fyr­irliðans Nem­anja Bil­bija. 

2:0 varð 3:0 á 30. mín­útu þegar að Tom­islav Kis bætti við öðru marki sínu. Þá tapaði Vikt­or Karl Ein­ars­son bolt­an­um klaufa­lega eft­ir send­ingu frá Ant­oni Ara Ein­ars­syni og Bil­bija komst inn í bolt­ann. Sendi hann bolt­ann svo á Kis sem sendi Ant­on í vit­laust horn og þre­faldaði for­ystu heima­manna. 

Tveim­ur mín­út­um síðar fékk Vikt­or Karl sitt annað gula spjald og var rek­inn af velli. Stuttu seinna bætti Bil­bija við fjórða marki Zr­injski þegar hann skallaði fyr­ir­gjöf Malek­in­usic í netið. 

Malek­in­usic var enn einu sinni á ferðinni á 39. mín­útu þegar hann bætti við fimmta marki bosn­íska liðsins er hann fylgdi aft­ur á eft­ir skalla. Hálfleikstöl­ur, 5:0.

Sjötta mark Zr­injski skoraði miðjumaður­inn Ant­onio Ivancic þegar hann potaði bolt­an­um rétt inn­an teigs í nær­hornið og kom heima­mönn­um í 6:0. 

Blikar rönkuðu aðeins við sér eft­ir það og lag­leg mörk frá Ant­oni Loga Lúðvíks­syni og Gísla Eyj­ólfs­syni bættu aðeins stöðuna, bæði eftir stoðsendingar frá Klæmint Olsen, og 6:2 urðu lokatölur. 

Zrinjski 6:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Kerim Memija (Zrinjski) á skot sem er varið Anton Ari ver vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert