„Hann skorar bara tvö fyrir okkur í næsta leik“

Anton Logi Lúðvíksson sendir boltann í leiknum í dag.
Anton Logi Lúðvíksson sendir boltann í leiknum í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hinn tvítugi Anton Logi Lúðvíksson átti flottan leik í dag þegar Breiðablik sótti KA-menn heim á Greifavöllinn í Bestu-deildinni í fótbolta. Anton Logi byrjaði leikinn á miðjunni en var færður í stöðu miðvarðar í hálfleik þar sem Oliver Stefánsson hafði fengið rautt spjald í lok fyrri hálfleiks.

Þar stóð kappinn vaktina eins og hann hafði aldrei gert neitt annað og svo kom hann í viðtal eftir leik og bar sig eins og mikill reynslubolti.

„Við vorum að rótera og hvíla menn sem hafa spilað mikið og þurftum að hreyfa liðið. Þetta var liðið sem átti að vinna í dag og menn spila bara þær stöður sem þeir eru settir í og leysa þær eftir bestu getu. Við ætluðum að vinna þennan leik í dag og vorum hársbreidd frá því.“

Þið þurftuð að spila allan seinni hálfleikinn manni færri, þótt það hafi ekki sést á spilamennskunni. Það hefur ekkert farið um þig inni í klefa í hálfleik þegar þú varst færður af miðjunni inn í hjarta varnarinnar.

„Nei. Maður spilar bara þar sem maður er settur. Mér fannst við leysa seinni hálfleikinn mjög vel. Við vorum að hreyfa boltann hratt og náðum að halda vel í boltann. Ég held að okkur hafi öllum liðið mjög vel í seinni hálfleik og það smitaði bara út frá sér. Þessi hálfleikur er eitthvað sem við getum tekið með okkur inn í næstu leiki.“

Leikmenn Breiðabliks stilla sér upp fyrir leikinn í dag.
Leikmenn Breiðabliks stilla sér upp fyrir leikinn í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það komu dauðafæri hjá hvoru liði í uppbótatíma leiksins og Kristinn Steindórsson fékk eitt besta færi ársins þegar hann var aleinn gegn Kristijan Jajalo, markverði KA, og enginn KA-maður nálægt honum. Kristinn setti boltann rétt yfir markið í stað þess að tryggja Blikum sigurinn. Hvað getur ungur og óreyndur leikmaður eins og þú sagt við Kristin eftir svona afgreiðslu?

„Kiddi hefur unnið svo mörg stig fyrir okkur í gegn um tíðina og hann er ofboðslega góður í að klára færin sín. Það er ekkert annað að gera en að setja fókusinn á næsta verkefni. Hann skorar bara tvö fyrir okkur í næsta leik.“

Þú og félagar þínir í liðinu hafið verið á ferð og flugi síðustu vikur og sér ekki alveg fyrir endann á því.

„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Vissulega hefur þetta tekið á og verið erfitt. Við erum búnir að læra mjög mikið á þessum tíma, höfum átt góða og slæma leiki. Hópurinn fer í gegn um þetta saman  og þetta hefur verið heilmikil reynsla, held ég bara fyrir alla í liðinu. Við vonum að það sé nóg eftir af þessu. Við eigum vonandi fullt af Evrópuleikjum eftir og við viljum spila þessa leiki fram eftir haustinu.“

Breiðablik á í það minnsta þrjá Evrópuleiki eftir á tímabilinu. Næsta verkefni verður að snúa við 2:6-tapi gegn bosníska liðinu Zrinjski Mostar á fimmtudaginn.

„Þeir eru góðir en það er leikur sem við ætlum að vinna“ sagði Anton Logi strax. „Við sjáum bara hvað gerist og hverju sá sigur mun skila“ bætti hann við kokhraustur.

Blikar hvíldu flesta reyndustu og bestu leikmenn sína í dag og ætla greinilega að leggja allt í sölurnar gegn Mostar-liðinu.

„Við ætlum að taka almennilega á móti Bosníumönnunum, bara eins og þeir tóku á móti okkur. Við komum að krafti í þann leik og bjóðum andstæðingana velkomna á gervigrasið. Við lentum á vegg úti og ætlum að svara fyrir það á fimmtudaginn.

Þú ert það ungur að þú manst líklega ekki eftir átökunum á Balkanskaganum fyrir 25-30 árum. Þú kannski vissir það ekki að borgin Mostar, sem þið spiluðuð í, var rústir einar í lok átakanna.

„Maður sá alveg að borgin bar þess merki að þar hefðu orðið einhver átök. Þetta er sögufræg borg og gaman að heimsækja hana, eins og aðrar borgir í Austur-Evrópu. Þær eru með mikla og stórbrotna sögu. Það er alltaf gaman að koma á þessar slóðir,“ sagði kappinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert