Blikar stigu skref í átt að riðlakeppninni

Gísli Eyjólfsson í baráttunni við Medzit Neziri í dag.
Gísli Eyjólfsson í baráttunni við Medzit Neziri í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson reyndist hetja Breiðbliks þegar liðið heimsótti Struga í fyrri leik liðanna í 4. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu á Biljanini Izvori-völlinn í Ohrid í Norður-Makedóníu í dag.

Leiknum lauk með sigri Breiðabliks, 1:0, en Höskuldur skoraði sigurmark leiksins á 35. mínútu.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Struga setti mikla pressu á Blika á upphafsmínútum leiksins, án þess þó að ná að skapa sér afgerandi marktækifæri.

Færeyingurinn Klæmint Olsen átti fyrsta færi leiksins á 11. mínútu þegar Jason Daði Svanþórsson átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri, beint á kollinn á Klæmint, sem átti frían skalla úr markteignum en boltinn fór í stöngina og út.

Besart Ibraimi átti svo stangarskot á 16. mínútur fyrir Struga eftir laglegt samspil norðurmakedónska liðsins en líkt og hjá Klæmint fór skotið í stöngina og út.

Bunjamin Shabani kom boltanum svo í markið á 28. mínútu og var fagnað vel og innilega en eftir að VAR-myndbandsdómgæslan hafði skoðað markið var það dæmt af þar sem boltinn fór í hönd sóknarmannsins áður en hann hælaði hann í netið.

Höskuldur Gunnlaugsson kom Bikum svo yfir á 35. mínútu með frábærum spretti. Hann fékk boltann úti hægra megin, labbaði fram hjá fjórum leikmönnum Struga, áður en hann þrumaði boltanum í bláhornið, utarlega í teignum, og Blikar voru því 1:0 yfir í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var talsvert lokaðri en sá fyrri, meðal annars vegna þess að mikill vindur gerði vart við sig í Ohrid um leið og flautað var til leiks og áttu leikmenn beggja liða erfitt með að hemja boltann.

Hvorugu liðinu tókst að skapa sér opin marktækifæri í síðari hálfleik en heimamenn í Struga voru þó duglegir við að láta reyna á Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks með langskotum fyrir utan teig.

Anton Ari var hins vegar vandanum vaxinn og átti í litlum vandræðum með skottilraunir Norður-Makedóníumanna.

Þegar komið var fram í uppbótartíma fékk Albaninn Vengjel Zguro að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt en Blikunum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn á lokamínútum leiksins.

Blikar eru því í afar vænlegri stöðu fyrir síðari leikinn sem fram fer á Kópavogsvelli eftir viku, fimmtudaginn 30. ágúst, en liðið sem vinnur einvígið tryggir sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Struga 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. +8 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert