Beiðni Blika um frestun aftur hafnað

Andri Rafn Yeoman og Birnir Snær Ingason eigast við í …
Andri Rafn Yeoman og Birnir Snær Ingason eigast við í fyrri leik liðanna í deildinni í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Mótanefnd Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, hefur hafnað annarri beiðni Breiðabliks um að fresta leik liðsins gegn Víkingi úr Reykjavík í Bestu deild karla.

Breiðablik fór þess á leit við KSÍ í síðustu viku að fresta leiknum til þess að minnka álag Kópavogsliðsins sem lék erfiðan leik við Struga í Norður-Makedóníu í undankeppni Sambandsdeildar UEFA á fimmtudag og fær liðið í heimsókn á Laugardalsvöll næstkomandi fimmtudag.

Beiðni Breiðabliks var hafnað og lagði knattspyrnudeild félagsins fram aðra beiðni í gær en samkvæmt Fótbolta.net var henni sömuleiðis hafnað. Fer leikur Víkings og Breiðabliks í 21. umferð Bestu deildarinnar því fram í kvöld klukkan 19.15.

Struga fékk leik sínum í deildinni í Norður-Makedóníu frestað og reyndu Blikar því öðru sinni að fá sínum leik frestað en án árangurs.

Sigurvegarinn í einvígi Breiðabliks og Struga tryggir sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert