Hefðum átt að jafna

Telma Ívarsdóttir, markvörður Blika, grípur hér knöttinn eftir hornspyrnu.
Telma Ívarsdóttir, markvörður Blika, grípur hér knöttinn eftir hornspyrnu. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það kom kafli í fyrri hálfleik þar sem við duttum svolítið niður og þær skora tvö mörk á stuttum tíma,“ segir Ásmundur Arnarson, þjálfari Breiðabliks, sem tapaði í dag 4:2 á móti Þrótti Reykjavík í lokaumferð Bestu deildar kvenna fyrir skiptingu deildarinnar í efri og neðri hluta.

Hann var að mörgu leyti ánægður með frammistöðu síns liðs í dag, þó að úrslitin hafi ekki verið Blikum í hag. „Þetta var hörkuleikur, og við sköpuðum mikið af færum en fáum á okkur of mikið af mörkum og það er kannski sérstaklega þessi kafli í fyrri hálfleik sem fer með okkur,“ segir Ásmundur sem bætir við að það hafi verið erfitt fyrir Blika að elta leikinn þegar Þróttarar náðu forystunni.

„Það er auðvitað alltaf erfitt að elta leikinn, en við gerðum það ágætlega, vorum að skapa okkur færi og vantaði bara að það dytti inn. Það voru stangarskot og færi og færi. Þetta þriðja mark er ódýrt af okkar hálfu, við færum henni eiginlega bara boltann í kjörstöðu. Við áttum hins vegar að jafna leikinn, við fengum fullt af færum til að skora þriðja markið,“ segir Ásmundur.

Hann var óánægður með ákvörðun dómara leiksins undir lokin, en þá vildu Blikar fá hornspyrnu en dómari og aðstoðardómari ákváðu eftir nokkra stund að um markspyrnu væri að ræða. „En þegar við höfum verið að sækja mikið á þær, þá dæmir hann markspyrnu þegar um augljóst horn var að ræða og við erum enn að svekkja okkur á því þegar fjórða markið kemur. Það er mómentið sem drepur leikinn, en við vorum búin að koma okkur í þessa holu fyrr,“ segir Ásmundur.

Úrslitin komu sér illa fyrir Breiðablik, sem fara nú inn í síðustu fimm leiki mótsins átta stigum á eftir Valskonum. Ásmundur segir að Blikar verði bara að hugsa um sjálfa sig í síðustu leikjunum og ná í bæði frammistöður og stig. „Frammistaðan hér í dag var nokkuð góð á köflum og við þurfum að byggja ofan á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert