Sterkur sigur FH á Kópavogsvelli

FH-ingurinn Jason Daði Svanþórsson með boltann í dag. Ólafur Guðmundsson …
FH-ingurinn Jason Daði Svanþórsson með boltann í dag. Ólafur Guðmundsson eltir hann. mbl.is/Óttar Geirsson

FH gerði góða ferð í Kópavoginn og vann 2:0-útisigur á Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta í dag. 

Breiðablik er áfram með 38 stig í þriðja sæti en FH er í 5. sæti með 34 stig og gulltryggði sér sæti í efri hluta deildarinnar með þessum sigri.

Heimamenn voru nýbúnir að fagna glæsilegum sigri og áfanga þegar þeir komust í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir sigur gegn Struga frá Makedóníu á fimmtudaginn.

FH-ingar þurftu að ná stigi eða stigum til að tryggja sér sæti í efri hlutanum þegar Besta deildin skiptist í tvennt og því var mikið undir hjá þeim og þeir vildu eflaust sína betri frammistöðu en eftir síðasta leik þar sem að þeir töpuðu gegn KA á heimavelli 0:3.

Það var talsverður vindur á Kópavogsvelli þegar leikurinn fór af stað. Bæði lið virtust ákveðin í því að ná inn marki í fyrri hálfleik og áttu sín færi án þess að of mikil óg skapaðist.

Besta færi fyrri hálfleiks kom á 18. mínútu þegar Ágúst Eðvald Hlynsson, leikmaður Breiðabliks, var kominn upp við endamörk vítateigsins hjá FH-ingum og átti hættulega sendingu fyrir markið á Kristófer Inga Kristinsson sem var með varnarmann í bakinu og Kristófer skaut rétt framhjá nærstöng.

Staðan var 0:0 í hálfleik en í síðari hálfleik voru gestirnir ívið sterkari. Á 47.mínútu voru heimamenn í einhverju brasi í vörninni og Oliver Sigurjónsson, sem átti annars fínan leik, missti frá sér boltann og Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmaður FH, komst inní sendingu.

Kjartan stal boltanum og kom sér í stöðu og lét skotið ríða af en það fór rétt framhjá markinu. Björn Daníel Sverrisson og Davíð Snær Jóhannsson áttu skot á 50. og 52. mínútu úr keimlíkum stöðum en bæði skotin rétt framhjá fjærstöng.

Það kom því ekki mikið á óvart að gestirnir úr Hafnarfirði komust yfir í kjölfarið. Það gerðist á 53. mínútu. Haraldur Einar Ásgrímsson fékk boltann á vinstri kanti, sendi flotta sendingu inn í vítateig á Kjartan Henry sem skallaði boltann laglega í markið. 

FH-ingar héldu áfram að sækja eftir markið og var lítið að frétta hjá Blikum. Davíð Snær, Björn Daníel og Gyrðir Hrafn áttu fín skot tækifæri yfir ca. tíu mínútna kafla milli 55. og 64. mínútu.

Þá kom, ef svo má segja, loksins einhver breyting hjá Blikum sem voru alls ekki að finna taktinn í sókninni. Þeir gerðu þrefalda breytingu en það gerði samt lítið. Davíð Snær fékk frábært færi á 76. mínútu en skot hans var skallað frá á línunni af Damir Muminovic, varnarmanni Blika.

Það var ekki fyrr en á 88. mínútu að Breiðablik byrjaði að ógna af alvöru að marki FH-inga. Þá var Jason Daði Svanþórsson í frábærri stöðu hægra megin rétt utan vítateigs FH, hann sendi boltann í átt að Kristófer Inga sem var að fara að setja hausinn í boltann og stanga hann í markið, en á ögurstundu náðu gestirnir að bjarga í horn.

Langbesta færi Blika kom svo ekki fyrr en í uppbótartíma seinni hálfleik. Jason Daði fékk boltann hægra megin utan vítateigs og átti hörkuskot í fjærhornið en boltinn fór af varnarmanni og rétt framhjá stönginni. Blikar tóku hornspyrnu og voru orðnir mjög fjölmennir í vítateig FH en FH-ingar hreinsuðu frá.

Boltinn varst á Davíð Snæ sem flikkaði boltanum yfir varnarmann FH og allt í einu var varamaðurinn Eetu Mömmö sloppinn einn í gegn og hann kláraði færið vel framhjá Antoni Ara. 0:2 og sigurinn í höfn.

Dómarinn flautaði leikinn af stuttu síðar og glæsilegur útisigur FH-inga staðreynd.

Þess má geta að þetta er fyrsti sigur FH á gervigrasi í hartnær 2 ár. Síðasti sigurleikurinn kom í september 2021 á Íslandsmótinu.

Þess má geta að liðin mætast hér á Kópavogsvelli í fyrsta leiknum í efri hlutanum í úrslitakeppninni þann 16. september.

Breiðablik 0:2 FH opna loka
90. mín. Eetu Mömmö (FH) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert