FH vann aftur á Kópavogsvelli

Davíð Snær Jóhannsson fagnar eftir að hafa komið FH yfir …
Davíð Snær Jóhannsson fagnar eftir að hafa komið FH yfir undir lok fyrri hálfleiks. mbl.is/Óttar Geirsson

FH gerði góða ferð á Kópavogsvöll og vann 2:0-útisigur á Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta. FH-ingar eru nú með 37 stig, aðeins einu stigi á eftir Breiðabliki, sem er enn í þriðja sæti.

Leikurinn var liður í fyrstu umferð efri hlutans, en FH vann einmitt 2:0-sigur á Breiðabliki á sama velli í síðustu umferðinni fyrir skiptinguna. 

Breiðablik byrjaði af krafti og Höskuldur Gunnlaugsson fékk fyrsta færið strax á þriðju mínútu er hann slapp einn í gegn, en Daði Freyr Arnarsson í marki FH varði vel frá honum.

Kjartan Henry Finnbogason fékk fyrsta færi FH á tíundu mínútu, en hann skaut nokkuð beint á Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks úr fínu færi í teignum.

Staðan var enn markalaus þegar óhugnanlegt atvik átti sér stað eftir rúmlega hálftíma leik, en þá skullu Anton Ari og Kjartan Kári Halldórsson úr FH illa saman með þeim afleiðingum að Kjartan steinlá á eftir. Var leikurinn stöðvaður í um 20 mínútur á meðan hugað var að Kjartani og hann síðan færður á sjúkrahús með sjúkrabíl. Kjartan var með meðvitund allan tímann.

Var tólf mínútum bætt við fyrri hálfleikinn vegna atviksins og það nýttu FH-ingar sér, því Davíð Snær Jóhannsson skoraði fyrsta mark leiksins á sjöundu mínútu uppbótartímans er hann skoraði af stuttu færi þegar Viktor Örn Margeirsson átti slakan varnarskalla eftir fyrirgjöf frá Haraldi Einari Ásgrímssyni.

Reyndist það eina mark fyrir hálfleiks og var staðan því 1:0, FH í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Liðin fengu sitt dauðafærið hvort á 62. mínútu. Fyrst skallaði Kjartan Henry Finnbogason beint á Anton Ara þegar hann var galopinn á fjær og örfáum sekúndum síðar skallaði Klæmint Olsen fram hjá úr öðru dauðafæri í teignum, en enn var staðan 1:0.

Þannig var hún fram að 74. mínútu þegar Vuk Oskar Dimitrijevic tvöfaldaði forskot FH-inga. Ástbjörn Þórðarson vann þá boltann á kantinum og kom honum á Vuk sem brunaði að marki og skoraði með góðu skoti á nærstöngina.

Breiðablik komst ekki sérlega nálægt því að skora eftir það og FH-ingar unnu sinn annan útisigur á Breiðabliki á tveimur vikum. 

Breiðablik 0:2 FH opna loka
90. mín. Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik) fær gult spjald Blikarnir í hættulegri sókn þegar leikurinn er stöðvaður vegna brots hjá Höskuldi. Fimmta spjaldið á Blika og níunda í leiknum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert