Bað bara um fimm prósent í viðbót

Arnar Bergmann Gunnlaugsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum í dag.
Arnar Bergmann Gunnlaugsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga var sáttur við sína menn og fór yfir leikinn og tímabilið en það tókst sinn tíma að ná spjalli við hann því hann tók í hendur og spjallaði við allt stuðningsfólk, sem kom til hans og gaf þeim tíma. 

„Mér fannst fyrri hálfleikur ekkert ósvipaður og fyrri hálfleikurinn við Stjörnuna – ef við hefðum haft aðeins meiri græðgi og skipulag hefðum við getað skorað.  Valsmenn voru góðir og sterkir en við ræddum í hálfleik um að gefa aðeins í, bara svona fimm prósent í öllum aðgerðum því þá myndi eitthvað opnast og það gerðum við svo þetta var virkilega sterkur seinni hálfleikur.  Stóru leikmennirnir okkar kveiktu aðeins meira á sér og þeir eru svona góðir leikmenn.  Svo fundum við þegar við vorum komnir með forystu – þó það hafi ekki verið að keppa að miklu fyrir Val - að við vorum í þvílíkum gír því við vorum á heimavelli svo sigurinn var sterkur,“ sagði Arnar eftir leikinn.  

Erum ekki að fara verja titla heldur vinna þá

Arnar þjálfari var ánægður með sína menn, ekki síst þar sem hann var að eiga við góða mótherja eins og Val og Breiðablik.  „Við verðum að hrósa liði eins og Val með sína stigasöfnun og sitt markaskor, sem hefðu getað verið verðugir meistarar, svo við vorum að keppa við þvílíkt öflug lið, eins og Blika í riðlakeppni í Evrópu.  Mér finnst deildin verða sífellt sterkari.  Mér finnst mínir menn hafa tekið framförum á hverju einasta ári, árangurinn er líka ótrúlegur að tapa bara þremur leikjum í deild og bikar í allt sumar.  Það er alveg ótrúlegt, ef ég á að segja eins og er.“

Þjálfarinn reiknar með að vera áfram við stýrið hjá meisturum Víkinga næsta tímabil. „Ég verð áfram, jájá.  Það er að nógu að keppa og viðhalda hungrinu.  Við skulum ekki segja að við ætlum að verja titla, heldur að við verðum að vinna þá aftur, gera atlögu með að komast í riðlakeppninni í Evrópu og sýna að það sé hægt að keppa á öllum vígstöðvum með sterkan hóp.   Það er nóg  eftir í þessum hóp, vonandi höldum við öllum strákunum og bætum einum eða tveimur virkilega sterkum leikmönnum við.  Nú tökum við kærkomið frí og njótum þess aðeins en í íþróttum er þannig að það er alltaf stutt í næsta leik og undirbúning að næsta tímabili.  Við skulum samt njóta núna,“ bætti Arnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert