Stjarnan vann lokaleikinn og tók þriðja sætið

Stjörnumenn fagna Eggerti Aroni Guðmundssyni eftir að hann kom þeim …
Stjörnumenn fagna Eggerti Aroni Guðmundssyni eftir að hann kom þeim yfir gegn Breiðabliki í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan tryggði sér þriðja sæti Bestu deildar karla í fótbolta með 2:0-sigri á útivelli gegn Breiðabliki í lokaleik deildarinnar á Kópavogsvelli í dag. Stjarnan endar með 46 stig og Breiðablik í sætinu fyrir neðan með 41. Bæði lið leika í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Eftir fínar fyrstu mínútur hjá Breiðabliki tóku Stjörnumenn völdin eftir það. Eftir fínan kafla hjá gestunum skoraði Eggert Aron Guðmundsson fyrsta markið á 14. mínútu. Hann fékk þá boltann við vítateigslínuna, lét vaða og boltinn af varnarmanni og í netið.

Stjörnumenn fengu fleiri færi til að bæta við marki en Blikar að jafna það sem eftir lifði hálfleiks. Eggert fékk það besta rétt fyrir hálfleik en Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks varði glæsilega frá honum af stuttu færi.

Kristinn Steindórsson fékk besta færi Breiðabliks í fyrri hálfleik er hann fékk boltann í teignum frá Gísla Eyjólfssyni en hann skaut nokkuð beint á Árna Snær Ólafsson í marki Stjörnunnar og voru hálfleikstölur því 1:0, Stjörnunni í vil.

Eggert Aron, sem fékk nafnbótina efnilegasti leikmaður deildarinnar fyrir leik, var í stuði því hann bætti við öðru marki sínu og öðru marki Stjörnunnar á 54. mínútu eftir glæsilegan sprett.

Eggert fékk boltann á eigin vallarhelmingi, brunaði alla leið inn í teig Blika og kláraði með glæsilegri vippu yfir Anton Ara og í netið.

Breiðablik gafst ekki upp og Jason Daði Svanþórsson var nálægt því að jafna á 64. mínútu þegar hann lék á nokkra varnarmenn og slapp einn gegn Árna Snæ en setti boltann síðan framhjá markinu.

Blikar voru líklegri eftir það, en gekk illa að skapa sér opin marktækifæri og Stjörnumenn luku tímabilinu á glimrandi máta. 

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Breiðablik 0:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Fimm mínútur eftir af þessu Íslandsmóti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert