Spilar sinn síðasta leik: „Karldýr sem hjálpar okkur Fífubörnunum“

Klæmint Andrasson Olsen og Höskuldur Gunnlaugsson fagna marki í leik …
Klæmint Andrasson Olsen og Höskuldur Gunnlaugsson fagna marki í leik með Breiðabliki í haust. mbl.is/Óttar Geirsson

Færeyski markahrókurinn Klæmint Andrasson Olsen mun á morgun spila sinn síðasta leik fyrir Breiðablik í knattspyrnu þar sem lánssamningur hans er senn á enda.

Klæmint kom að láni frá NSÍ Runavík í heimalandinu fyrir tímabilið og hefur skorað 13 mörk í 35 leikjum fyrir Blika í öllum keppnum, þar á meðal fyrstu tvö mörk liðsins í riðlakeppni í Evrópu hingað til.

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal fyrir leik liðsins gegn Gent í 4. umferð B-riðils Sambandsdeildar Evrópu annað kvöld.

Bar Höskuldur Færeyingnum afskaplega vel söguna er hann var spurður að því hver upplifun fyrirliðans var af því að vera liðsfélagi Klæmints.

Heiðarlegasta mannvera sem ég hef kynnst

„Það hefur verið ótrúlega dýrmætt . Þetta er algjör toppmaður og einhver heiðarlegasta mannvera sem ég hef kynnst, bæði inni á fótboltavelli og ekki síður fyrir utan hann.

Hann er frábær fótboltamaður, hefur heldur betur reynst okkur drjúgur og staðið fyrir sínu. Hann hefur ávallt gert það hvort sem það er á æfingum eða í leikjum. En það er fyrst og fremst viðhorfið hans.

Hann er reynslubolti og alvöru karldýr sem hjálpar okkur Fífubörnunum mikið. Frábær einstaklingur, frábær fótboltamaður og við munum sakna hans mikið, inni á vellinum og ekki síður utan hans,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert