Bauð fyrirliðann í skiptum fyrir Aron Pálmarsson

Heimir Guðjónsson og landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson eru miklir FH-ingar.
Heimir Guðjónsson og landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson eru miklir FH-ingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna þarf maður að tala varlega en ég var kominn langt með þetta,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu.

Reyndi við Aron Pálmarsson

Heimir, sem er 54 ára gamall, snéri aftur í Hafnarfjörðinn í nóvember á síðasta ári eftir að hafa stýrt liðinu frá 2008 til 2017 og gerði hann þá liðið fimm sinnum að Íslandsmeisturum.

Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson meiddist í haust og Hafnfirðingum vantaði því varamarkvörð. Heimir reyndi að fá Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, á bekkinn hjá FH en Aron, sem snéri heim úr atvinnumennsku í sumar, var frábær markmaður á sínum tíma.

Hann peppaðist allur upp

„Ég hef þekkt Aron Pálmarsson lengi og ég ræddi þetta við hann,“ sagði Heimir.

„Hann peppaðist allur upp og var heldur betur klár en handknattleiksdeildin var hins vegar ekki klár í þetta. Þetta hefði verið geggjað því þegar að ég var að byrja að þjálfa hjá FH þá þjálfaði ég Aron í 2. flokknum og hann var geggjaður markvörður.

Þetta var líka spurning um það ef hann hefði meiðst, þá hefði ég eflaust verið í djúpum skít og rekinn frá félaginu,“ sagði Heimir léttur.

Tók ekki vel í það

Heimir var svo spurður að því hvort hann hefði boðið Sigursteini Arndal, þjálfara karlaliðs FH í handknattleik, Björn Daníel Sverrisson, fyrirliða liðsins, í skiptum fyrir Aron.

„Það er hárrétt en Sigursteinn tók ekki vel í það. Ég sá Bjössa aldrei í handbolta en menn vilja meina að hann hafi verið mjög efnilegur handboltamaður,“ sagði Heimir meðal annars.

Umræðan um FH hefst á 2:00 mínútu en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert