Gátu ekki verið minni menn en Gylfi Þór

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sínu 27. landsliðsmarki á Laugardalsvelli.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar sínu 27. landsliðsmarki á Laugardalsvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Gylfi Þór Sigurðsson var langlaunahæsti leikmaður landsliðsins þegar okkur sem gekk best en samt var það alltaf hann sem setti besta fordæmið inni á vellinum,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu þegar rætt var um íslenska karlalandsliðið.

Lagði mest á sig og hljóp mest

Íslenska liðið endaði í 4. sæti J-riðils undankeppni EM 2024 undir stjórn Åge Hareide en liðið er á leið í umspil í mars um sæti í lokakeppninni þar sem Ísrael verður andstæðingur liðsins.

Gylfi Þór Sigurðsson snéri aftur í landsliðið í október eftir langa fjarveru og bætti á sama tíma markamet landsliðsins þegar hann skoraði sitt 27. landsliðsmark gegn Liechtenstein.

„Hann lagði mest á sig, hljóp mest og var besti fótboltamaðurinn líka,“ sagði Heimir.

„Þá horfðu hinir leikmennirnir á hann og sáu að þeir þyrftu að fylgja hans fordæmi því þeir gætu ekki verið minni menn en hann.

Það er nákvæmlega það sem eldri leikmenn liðsins þurfa að gera núna til þess að leiða yngri leikmennina áfram svo við getum búið til góða liðsheild og orðið samkeppnishæfir á nýjan leik,“ sagði Heimir meðal annars.

Umræðan um íslenska landsliðið hefst á mínútu 30:00 en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert