Draumur fyrir okkur að spila á Kópavogsvelli

Höskuldur Gunnlaugsson og Halldór Árnason á fréttamannafundinum í dag.
Höskuldur Gunnlaugsson og Halldór Árnason á fréttamannafundinum í dag. mbl.is/Gunnar Egill

„Auðvitað er draumur fyrir okkur að fá að spila einn leik á Kópavogsvelli í þessari riðlakeppni. Við tökum því fagnandi. Leiktíminn gerir þó okkar fólki erfitt fyrir að mæta og fylla völlinn,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, á fréttamannafundi í dag.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti í gær að leikur Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv hafi verið færður af Laugardalsvelli og á Kópavogsvelli, auk þess sem nýr leiktími er klukkan 13 í stað 20.

„Það er lítill fyrirvari til þess að undirbúa það sem þarf að gera og annað. En það er frábært að fá einn leik á Kópavogsvelli,“ hélt Halldór áfram.

Fögnum því að spila á heimavelli

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, sat einnig fyrir svörum og tók í sama streng og þjálfarinn.

„Ég held að þetta sé bara af hinu góða. Það er kominn enn meiri spenningur og þetta er gaman. Við fögnum því að fá að spila hérna á sannarlega okkar heimavelli, sem við þekkjum vel og okkur líður vel á.

Okkur líður alveg ágætlega á Laugardalsvelli en það er alltaf extra sæt tilfinning að vera hér á Kópavogsvelli. Varðandi leiktímann þá hef ég enga sérstaka skoðun á honum.

Þetta er bara flott. Eina sem er leiðinlegt er að fólk kemst í einhverjum tilfellum ekki á völlinn vegna vinnu eða skóla. Það er smá fórnarkostnaður,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert