„Ekkert mjög fallegt í dag“

Glódís Perla Viggósdóttir fagnar marki Diljá Ýr Zomers ásamt leikmönnum …
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar marki Diljá Ýr Zomers ásamt leikmönnum íslenska liðsins. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta var kannski ekkert mjög fallegt í dag,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við RÚV eftir 2:1-sigur liðsins gegn Wales í 3. riðli Þjóðadeildarinnar í Cardiff í kvöld.

Hildur Antonsdóttir og Dilja Ýr Zomers skoruðu mörk íslenska liðsins í sitt hvorum hálfleiknum.

„Við áttum mörg augnablik þar sem við hefðum getað gert mun betur með boltann en við náðum að spila betur inn í svæðin sem við ætluðum að spila okkur inn í, í seinni hálfleik.

Heilt yfir þá er ég fyrst og fremst sátt með sigurinn og að ná að tryggja okkur inn í þetta umspil um áframhaldandi veru í A-deildinni,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.

Spilamennska liðsins var betri í seinni hálfleik þar sem liðinu gekk talsvert betur að halda í boltann.

„Við gerðum í rauninni engar áherslubreytingar í hálfleik. Þetta snérist fyrst og fremst um að þora að spila boltanum. Taktískt séð þá breyttum við í raun engu,“ sagði Glódís Perla í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert