Lygileg frammistaða nýliðans í mögnuðum sigri á Dönum

Ísland gerði frábæra ferð til Viborg og lagði Danmörku að velli, 1:0, í lokaumferð riðils 3 í A-deild Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu kvenna í kvöld.

Danir hófu leikinn af krafti og fengu sitt besta færi í fyrri hálfleiknum eftir aðeins þriggja mínútna leik.

Frederikke Thögersen átti þá góða fyrirgjöf með jörðinni af hægri kanti, boltinn skoppaði við markteiginn án þess að íslenskur leikmaður næði til hans og Janni Thomsen náði skotinu á fjærstönginni af örstuttu færi en skaut yfir.

Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sædís Rún Heiðarsdóttir og Diljá …
Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sædís Rún Heiðarsdóttir og Diljá Ýr Zomers hlaupa til baka eftir mark Karólínu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Eftir þetta færi vaknaði íslenska liðið til lífsins og skellti einfaldlega í lás varnarlega. Danir héldu boltanum vel en áttu í stökustu vandræðum með að finna glufur á sterkri vörn Íslands.

Eftir hálftíma leik komst Karólína Lea Vilhjálmsdóttir næst því að koma Íslandi yfir. Lene Christensen í marki Danmerkur fór þá út fyrir vítateig sinn, átti skelfilega sendingu beint á Karólínu Leu sem tók viðstöðulaust skot af löngu færi en boltinn skoppaði framhjá tómu markinu.

Skömmu síðar, á 34. mínútu, fékk íslenska liðið annað gott færi eftir glæsilegt spil. Selma Sól Magnúsdóttir fann þá Alexöndru Jóhannsdóttur við vítateigslínuna, Alexandra skallaði boltann út á Öglu Maríu Albertsdóttur sem reyndi viðstöðulaust vinstri fótar skot á lofti úr D-boganum en það fór naumlega framhjá markinu.

Fanney Inga Birkisdóttir ver í eitt skiptið af mörgum í …
Fanney Inga Birkisdóttir ver í eitt skiptið af mörgum í leiknum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þremur mínútum síðar átti Kathrine Möller Kühl skot úr vítateignum eftir gott spil Dana en Fanney Inga Birkisdóttir, sem lék sinn fyrsta A-landsleik í kvöld, varði auðveldlega. Hún átti sannarlega eftir að koma frekar við sögu í leiknum.

Áður en fyrri hálfleikur var úti gerði Karólína Lea sig aftur líklega þegar hún náði góðu skoti rétt fyrir utan vítateig eftir laglegan sprett en Christensen var vel á verði og varði frá henni.

Staðan var því markalaus í leikhléi.

Lánlaus Thomsen

Í síðari hálfleik mættu Danir dýrvitlausir til leiks og settu íslenska liðið undir gífurlega pressu.

Hvert færið rak annað þar sem Thomsen átti til að mynda gott skot vinstra megin úr vítateignum á 54. mínútu sem stefndi niður í bláhornið fjær en Fanney Inga varði glæsilega aftur fyrir.

Títtnefnd Thomsen fékk enn eitt færið tveimur mínútum síðar þegar hún var alein á fjærstönginni, fyrsta snertingin sveik hana en Thomsen náði svo táarskoti. Fanney Inga var hins vegar mætt til að loka alfarið á hana og varði aftur fyrir.

Íslenska liðið syngur þjóðsönginn í Viborg í kvöld.
Íslenska liðið syngur þjóðsönginn í Viborg í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Á milli þessara tveggja færa hjá Thomsen náði Amalie Vangsgaard prýðis skalla eftir hornspyrnu frá hægri en einu sinni sem áður varði Fanney Inga.

Eftir að hafa náð að standa af sér þetta mikla áhlaup Dana fyrsta stundarfjórðunginn í síðari hálfleik róaðist leikurinn nokkuð.

Nýttu eina færið í síðari hálfleiknum

Þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka gerðust heimakonur aftur atgangsharðar þar sem áðurnefnd Thomsen var einu sinni enn að gera sig líklega en hitti boltann ekki á lofti er hún var ein á auðum sjó á markteig. Í kjölfarið varði Fanney Inga hættulegt skot Emmu Færge rétt fyrir utan teig.

Stuttu síðar, á 77. mínútu, var það hins vegar Ísland sem náði forystunni.

Byrjunarlið Íslands í Viborg í kvöld.
Byrjunarlið Íslands í Viborg í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Karólína Lea fékk þá boltann í vítateignum eftir frábæra fyrirgjöf Sædísar Rúnar Heiðarsdóttur frá vinstri. Hún tók laglega við boltanum vinstra megin í teignum, náði skoti sem Christensen varði, Karólína Lea náði frákastinu sjálf og lagði boltann snyrtilega niður í bláhornið fjær í annarr tilraun.

Voru þetta einu tvö skot Íslands í síðari hálfleiknum.

Einni mínútu fyrir leikslok átti Thomsen enn eina tilraunina en skot hennar vinstra megin úr vítateignum fór rétt framhjá markinu.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma gerði Amalie Vangsgaard sig líklega með skoti við vítateigslínuna, skotið stefndi upp í markvinkilinn en fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir slæmdi höfðinu í boltann og Fanney Inga greip hann í kjölfarið.

Nær komust Danir ekki og glæsilegur eins marks sigur Íslands niðurstaðan.

Ótrúleg frumraun Fanneyjar

Ísland lýkur því keppni í riðlinum með 9 stig, þremur stigum á eftir Danmörku í öðru sæti og fjórum á eftir toppliði Þýskalands.

Íslenska liðið hitar upp í Viborg í kvöld.
Íslenska liðið hitar upp í Viborg í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Fanney Inga er einungis 18 ára gömul en skilaði lýtalausri frammistöðu í sínum fyrsta A-landsleik og er leitun að annarri eins frumraun.

Sjálfsöryggið skein af henni allan leikinn og steig Fanney Inga hreinlega ekki feilspor. Óhætt er að segja að framtíð markvarðarins sé afar björt.

Danmörk 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Amalie Vangsgaard (Danmörk) á skot sem er varið Skotið rétt utan teigs en Fanney Inga einu sinni sem áður frábærlega á verði í markinu!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert