Með fiðring í maganum

Fanney Inga Birkisdóttir.
Fanney Inga Birkisdóttir. mbl.is/Hákon Pálsson

„Tilfinningin eftir þennan leik er mjög góð og ég er í rauninni ennþá að ná mér niður á jörðina,“ sagði Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Fanney, sem er 18 ára gömul, lék sinn fyrsta A-landsleik á þriðjudaginn síðasta þegar Ísland vann magnaðan sigur gegn Danmörku, 1:0, í 3. riðli Þjóðadeildarinnar í Viborg í Danmörku.

Markvörðurinn ungi átti stórleik í marki Íslands og það var ekki að sjá á henni að hún væri að leika sinn fyrsta A-landsleik, hvað þá að hún væri einungis 18 ára gömul.

Fanney er samningsbundin Val á Hlíðarenda og var í lykilhlutverki hjá liðinu í sumar þegar liðið varð Íslandsmeistari þriðja árið í röð en tímabilið í ár var hennar fyrsta tímabil sem aðalmarkvörður á Hlíðarenda.

Reynslunni ríkari eftir EM

Fanney varði mark Vals í sumar og stóð sig afar vel en hún leysti af hólmi Söndru Sigurðardóttur sem ákvað að leggja hanskana á hilluna í mars á þessu ári en sneri svo aftur í boltann um mitt síðasta sumar og var varamarkvörður fyrir Fanneyju seinni hluta tímabilsins.

„Á leikdegi vaknaði ég svo með fiðring í maganum og fiðringurinn jókst hægt og rólega eftir því sem nær dró leiknum. Um leið og við komum á völlinn þá náði ég að slaka á og þá fór ég strax í að einblína á það hvað ég ætlaði mér að gera í leiknum. Ég fór með U19-ára landsliðinu í lokakeppnina í Belgíu síðasta sumar og sú reynsla hjálpaði mér mikið, sem og reynslan með Val í sumar og í Meistaradeildinni þar sem við spiluðum stóra leiki líka.“

Viðtalið við Fanneyju má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert