Erfitt að selja sjálfan sig þegar þú ert 39 ára

„Þetta er allt frekar óljóst en ef ég þarf að koma til Íslands að spila, á meðan fjölskyldan er í Svíþjóð, þá er það ekki að fara endast í mörg ár,“ sagði knattspyrnumaðurinn og fyrrverandi landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson í Dagmálum.

Birkir Már, sem er 39 ára gamall, er að flytja til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni síðar í þessum mánuði en samningur hans við uppeldisfélag sitt Val rann út í október og er óvíst hvar hann spilar á næstu leiktíð.

Allt frekar óljóst

Birkir Már verður fertugur á næsta ári og er ekki hættur í fótbolta en það er algjörlega óvíst hvar hann mun spila á næstu leiktíð.

„Ég byrjaði á því að hafa samband við Hammarby en það er allt frekar óljóst,“ sagði Birkir Már.

„Þeir eru ekki búnir að útiloka neitt en hvort ég verði leikmaður eða fái starf innan félagsins þarf svo að koma í ljós. Ég er búinn að senda á lið nálægt Stokkhólmi en það hefur ekki komið margt jákvætt út úr því.

Ég held samt í vonina um að það komi eitthvað inn á borðið en eins og staðan er núna eru þetta allt einhverjar vangaveltur. Það er nánast ómögulegt að vera 39 ára að reyna selja sjálfan sig, þó hlaupatölurnar mínar séu góðar, þá er kennitalan alltaf það fyrsta sem menn horfa í,“ sagði Birkir Már meðal annars.

Viðtalið við Birki Má í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert