Benedikt með þrennu í stórsigri Fylkis

Benedikt Daríus Garðarsson skoraði þrennu í dag.
Benedikt Daríus Garðarsson skoraði þrennu í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Benedikt Daríus Garðarsson skoraði þrennu fyrir Fylki þegar liðið vann öruggan sigur á ÍBV, 4:0, í 2. riðli A-deildar deildabikarsins í knattspyrnu á Fylkisvelli í dag.

Benedikt skoraði á tíundu og 13. mínútu og fullkomnaði svo þrennuna á 36. mínútu.

Staðan í hálfleik því 3:0.

Hinn 16 ára gamli Guðmar Gauti Sævarsson skoraði svo fjórða markið á 73. mínútu og öruggur sigur Árbæinga í höfn.

Fylkir er í fimmta sæti 2. riðils með 3 stig eftir þrjá leiki. ÍBV er á botninum án stiga.

Aron og Dagur sáu um Grindavík

Breiðablik fékk Grindavík í heimsókn á Kópavogsvöll í 1. riðli og vann örugglega, 4:0.

Aron Bjarnason skoraði tvennu fyrir Blika og það gerði hinn 18 ára gamli Dagur Örn Fjeldsted sömuleiðis.

FH mætti Vestra í Akraneshöllinni og fór með sigur af hólmi, 1:0.

Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði sigurmarkið á 41. mínútu.

FH er á toppi 1. riðils með sex stig eftir tvo leiki. Breiðablik er í þriðja sæti með 3 stig eftir tvo leiki líkt og Grindavík sæti neðar.

Vestri er í fimmta sæti með eitt stig eftir tvo leiki.

Sowe með fernu

Í 4. riðli mættust Dalvík/Reynir og Leiknir úr Reykjavík á Dalvíkurvelli. Leiknir hafði auðveldlega betur, 5:0.

Sindri Björnsson og Omar Sowe skoruðu fyrir gestina undir lok fyrri hálfleiks og staðan 2:0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik bætti Sowe við þremur mörkum og var því með fernu fyrir Leiknismenn.

Á 78. mínútu fékk Shkelzen Veseli beint rautt spjald í liði Leiknis.

Leiknir fór með sigrinum upp í þriðja sæti 4. riðils þar sem liðið er með fjögur stig eftir tvo leiki.

Dalvík/Reynir er á botninum án stiga eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert