Hjálpar mér að spila í vetrardeild

Selma Sól Magnúsdóttir ræðir við mbl.is fyrir æfinguna í Stara …
Selma Sól Magnúsdóttir ræðir við mbl.is fyrir æfinguna í Stara Pazova. Ljósmynd/KSÍ

Selma Sól Magnúsdóttir, miðjumaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að liðið verði að spila mjög vel til að sigra Serba í fyrri umspilsleik liðanna í Stara Pazova í Serbíu á föstudaginn.

„Ég held að þetta verði hörkuleikir og það er mikið í húfi. Þetta verður hörð barátta við erfiða mótherja og við verðum að spila mjög vel til að vinna," sagði Selma Sól við mbl.is fyrir æfingu liðsins í Belgrad í dag.

Hún tók undir það að endurkoma Sveindísar Jane Jónsdóttur væri íslenska liðinu mikilvæg, enda hefði liðið saknað hennar í Þjóðadeildinni í haust.

„Já, að sjálfsögðu er það fagnaðarefni að hún sé með okkur á ný. Sveindís er virkilega góður leikmaður og liðinu mjög mikilvæg, þannig að það er gott að fá hana aftur í hópinn," sagði Selma.

Hún yfirgaf Noreg um áramótin, fór frá Rosenborg til þýska liðsins Nürnberg, og sagði að það hjálpaði sér tvímælalaust fyrir þessa leiki gegn Serbum.

„Já, ég tel mig vera í góðu formi í dag eftir að hafa spilað með Nürnberg síðustu vikurnar. Með þessu skrefi spila ég nú í vetrardeild og það mun örugglega hjálpa mér í þessum leikjum.“

Engin hætta á vanmati

Ísland hefur unnið alla sex landsleiki sína gegn Serbum, suma með miklum mun eins og 5:0 og 9:1. Spurð hvort hætta væri á að íslensku landsliðskonurnar myndu vanmeta serbneska liðið kvaðst hún ekki eiga von á því.

„Nei, ég held að það sé engin hætta á því. Það eru tíu ár frá síðasta leik við Serbíu og tíu ár er langur tími í fótboltanum og hér hafa orðið miklar breytingar á þeim tíma, rétt eins og alls staðar í heiminum á undanförnum árum. Ég tel að Serbía verði afar erfiður mótherji, þetta er allt öðruvísi en fyrir tíu árum," sagði Selma.

Skoðunarferðirnar bíða

Íslenska liðið dvelur á sama hóteli í Belgrad og á síðasta ári þegar það mætti Hvít-Rússum í borginni. Spurð hvort hún hefði séð eitthvað annað en hótelið og æfingasvæðið sagðist Selma ekki hafa séð mikið af borginni.

„En við þekkjum umhverfið og okkur líður vel hérna. Það er enginn tími núna fyrir skoðunarferðir, það gerum við seinna!" sagði Selma Sól Magnúsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert