Eiginleikar sem fáir búa yfir

Sandra María Jessen ræðir við mbl.is í Stara Pazova í …
Sandra María Jessen ræðir við mbl.is í Stara Pazova í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Þórs/KA, segir að Ísland eigi fyrir höndum erfiðan leik gegn Serbíu í umspilinu um sæti í A-deild undankeppni EM í Stara Pazova á morgun.

Íslenska liðið æfði á keppnisvellinum í Stara Pazova í morgun og Sandra sagði við mbl.is fyrir keppnina að Serbía væri lið á mikilli uppleið.

„Við verðum að vera vakandi frá fyrstu mínútu leiksins. Serbía heldur vel í boltann og leikmenn liðsins eru klókir og leika í bestu deildum Evrópu. Þetta verður ekki auðveldur leikur. 

Við verðum að nýta  þeirra veikleika og vera upp á okkar besta til að sækja sigur hér í Serbíu,“ sagði Sandra við mbl.is en þetta er fyrri viðureign liðanna og sú síðari fer fram á Kópavogsvellinum á þriðjudaginn.

Hversu mikilvægt er að Sveindís Jane Jónsdóttir sé komin aftur í ykkar lið?

„Það er mjög gott fyrir okkur. Allir vita að hún er lykilmaðurinn í okkar liði. Hún hefur eiginleika sem fáir leikmenn búa yfir. Það mun hjálpa okkur á föstudaginn og vonandi skorar hún mörk.“

Bara ánægð með að spila

Sandra María Jessen í sigurleik Íslands í Wales í desember.
Sandra María Jessen í sigurleik Íslands í Wales í desember. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þú ert fjölhæfur leikmaður sem getur spilað margar stöður. Hver er þín uppáhalds staða á vellinum?

„Mér finnst best að vera hluti af sókninni, annaðhvort sem sóknarsinnaður bakvörður eða kantmaður. En eins og flestir leikmenn segja þá er ég bara ánægð að spila.“

Þú átt tveggja ára dóttur, Hvernig er að vera í burtu frá henni í svona landsliðsverkefnum?

„Ég vil alltaf vera nálægt börnunum mínum en ég held að það sýni bara hversu mikilvægur fótboltinn er mér. Fólkið í kringum mig er afar gott, fjölskyldan mín, kærastinn og fleiri. 

Dóttir mín væri helst til í að hafa mig hjá sér en hún elskar að sjá mig spila. Hún horfir á alla leiki og mætir á þá sem ég spila heima á Akureyri. Vonandi áttar hún sig á því einn daginn að fjarvera mín sé eitthvað sem hún getur verið stolt af,“ sagði Sandra María Jessen sem hefur leikið 38 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert