Blikar skoruðu fimm og Elmar með þrennu

Kristinn Steindórsson skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í kvöld.
Kristinn Steindórsson skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í kvöld. Kristinn Magnússon

Breiðablik komst í kvöld í efsta sætið í 1. riðli A-deildar í deildabikar karla í fótbolta með stórsigri gegn Gróttu á Seltjarnarnesi, 5:0.

Riðillinn er hnífjafn því öll liðin hafa tapað stigum. Breiðablik, FH og Grindavík eru öll með 6 stig eftir þrjá leiki og síðan er Keflavík með 4 stig eftir tvo leiki þannig að þessi fjögur lið eru í baráttu um eitt sæti í undanúrslitum. Vestri er síðan með eitt stig og Grótta ekkert.

Kristinn Steindórsson skoraði tvö fyrstu mörk Blika í kvöld, á fyrstu 17 mínútunum, en síðan skoruðu Dagur Örn Fjeldsted, Damir Muminovic og Arnór Gauti Jónsson þrjú mörk á ellefu mínútum fyrir miðjan síðari hálfleik.

Í 4. riðli keppninnar skoraði Elmar Kári Cogic þrennu fyrir Aftureldingu en það nægði þó bara til jafnteflis, 3:3, gegn Leikni úr Reykjavík í Mosfellsbænum. Andi Hoti skoraði tvö mörk og Omar Sowe eitt fyrir Leikni sem er taplaus eftir þrjá leiki og berst við KA, Víking og ÍA um sigur í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka