Markið áfall en við sýndum karakter

Glódís Perla Viggósdóttir skallar boltann frá marki Íslands í eitt …
Glódís Perla Viggósdóttir skallar boltann frá marki Íslands í eitt skiptið af mörgum í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sagði eftir jafnteflið gegn Serbum, 1:1, í Stara Pazova í dag að miðað við leikinn gætu íslensku landsliðskonurnar verið nokkuð ánægðar með niðurstöðuna.

Seinni umspilsleikurinn fer fram á Kópavogsvelli á þriðjudaginn og þar ræðst hvort liðanna leikur í A-deild undankeppni Evrópumótsins síðar á þessu ári.

„Ég held að sem lið höfum við varist vel í dag. Þær fengu lítið af opnum færum, sköpuðu helst hættu þegar fastar sendingar komu í gegnum vítateiginn, en í heildina séð var þetta ekki okkar besti leikur. Við vitum að við getum spilað miklu betur. Sérstaklega hvað varðar að halda boltanum.

Þær pressuðu okkur ekkert meira en við bjuggumst við, en við áttum að gera betur og tókum ekki alltaf réttar ákvarðanir eftir að hafa spilað okkur í gegnum pressuna.

En í heildina séð held ég að þetta hafi verið jafn leikur og úrslitin séu nokkuð sanngjörn. Við höfum allt að spila fyrir í seinni leiknum og eflaust voru bæði liðin með það í huga að fara ekki með slæma stöðu í hann. Við getum því verið nokkuð ánægðar með niðurstöðuna," sagði Glódís við mbl.is eftir leikinn.

Þetta var alltof auðvelt mark

Hvernig sástu markið sem Serbía skoraði?

„Það voru mikil vonbrigði því þetta var alltof auðvelt mark. Vissulega var þetta fallegt skot en hún átti aldrei að komast í þessa stöðu eftir hornspyrnu. Það var áfall en við sýndum karakter með því að svara strax fyrir okkur og jafna metin. Við getum tekið það með okkur úr þessum leik, ásamt baráttuviljanum, en við ætlum okkur að spila betur en þetta í seinni leiknum."

Hvar varstu þegar þið jöfnuðuð metin? Sástu markið vel, þetta var barningur þarna í markteignum?

„Ég var þarna í vítateignum, eins og alltaf þegar við fáum löngu innköstin frá Sveindísi. Það er ekki auðvelt að verjast þeim. Boltinn skoppaði í teignum, svo fór hann greinilega yfir marklínuna, sem betur fer!"

Á ekki von á mörgum á völlinn á miðjum degi

Talaðirðu eitthvað við samherja þinn hjá Bayern, Jovönu Damnjanovic, eftir leikinn?

„Nei, við föðmuðumst bara og ég sagði „góður leikur" við hana. Við hittumst aftur á þriðjudaginn. Þessi var jafn en vonandi náum við að stýra seinni leiknum betur og komast áfram."

Eitthvað sem þú vilt segja við ykkar stuðningsfólk fyrir seinni leikinn?

„Ég veit ekki hvað verða margir áhorfendur. Leikurinn verður á miðjum degi vegna skilyrða UEFA vegna birtunnar. Ég á því ekki von á alltof mörgum á völlinn vegna vondrar tímasetningar. Ég vildi að við hefðum getað spilað alvöru heimaleik að kvöldi með öllu okkar stuðningsfólki. Þannig er það ekki núna en við munum gera okkar besta," sagði Glódís Perla Viggósdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert