Úrslitin ráðast á Íslandi og það skiptir öllu máli

Ingibjörg Sigurðardóttir og samherjar fagna jöfnunarmarkinu í Serbíu í dag.
Ingibjörg Sigurðardóttir og samherjar fagna jöfnunarmarkinu í Serbíu í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Ingibjörg Sigurðardóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sagði við mbl.is að varnarleikurinn gegn Serbum í Stara Pazova í dag hefði verið nokkuð góður.

Leikurinn endaði 1:1 en þetta var fyrri umspilsleikur liðanna um sæti í A-deild undankeppni EM.

„Tilfinningarnar eftir leikinn eru blandaðar. Við unnum ekki leikinn, við fengum færi til þess eftir að þær misstu leikmann af velli með rautt spjald, en nýttum þau ekki. En í heildina var þetta allt í lagi," sagði Ingibjörg við mbl.is eftir leikinn.

Þú hafðir mikið að gera í vörninni, var serbneska liðið sterkara en þið bjuggust við?

„Nei, alls ekki. Þær eru með góða leikmenn og við héldum þeim vel í skefjum. Það var svekkjandi að fá á sig mark upp úr hornspyrnu, því við erum góðar í því að verjast þeim. Við sofnuðum á verðinum þar, en í heildina séð höfðum við góð tök á varnarleiknum."

Hvernig er andrúmsloftið í klefanum eftir leikinn? Eruð þið vonsviknar með úrslitin eða sáttar?

„Þetta er tveggja leikja einvígi og við vissum alltaf að þetta myndi ekki ráðast í þessum leik. Við verðum bara að taka það góða og það slæma með okkur heim í seinni leikinn. Þá spilum við á Íslandi, þar ráðast úrslitin og það skiptir öllu máli," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert