Veit ekki einu sinni hvort ég skoraði

Alexöndru Jóhannsdóttur (8) fagnað eftir að hún jafnaði metin í …
Alexöndru Jóhannsdóttur (8) fagnað eftir að hún jafnaði metin í 1:1 í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Alexandra Jóhannsdóttir er sannfærð um að íslenska landsliðið í knattspyrnu muni spila betur gegn Serbum á þriðjudag en það gerði í jafnteflisleik liðanna, 1:1, í Serbíu í dag.

Þetta var fyrri umspilsleikur liðanna um sæti í A-deild undankeppni EM og sá seinni fer fram á Kópavogsvelli á þriðjudaginn. Alexandra skoraði mark Íslands í dag og sagði leikinn hafa verið mjög erfiðan.

Markaskorararnir Tijana Filipovic og Alexandra Jóhannsdóttir eigast við í Stara …
Markaskorararnir Tijana Filipovic og Alexandra Jóhannsdóttir eigast við í Stara Pazova. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

„Við byrjuðum mjög illa en unnum okkur smám saman inn í leikinn. Seinni hálfleikurinn er ekki það besta sem við höfum sýnt en við eigum heilan leik eftir og munum búa okkur vel undir hann," sagði Alexandra við mbl.is eftir leikinn.

Hvernig atvikaðist þetta þegar þú skoraðir jöfnunarmarkið? Það gekk mikið á í markteignum!

„Já, ég veit ekki einu sinni hvort ég skoraði en það er fínt ef ég á það. Kannski var þetta bara sjálfsmark."

Hvers vegna heldurðu að serbneska liðið hafi verið hættulegri aðilinn í leiknum og skapað sér fleiri sóknarfæri?

„Þetta er góð spurning. Serbneska liðið var virkilega gott í dag og hélt boltanum vel, en það gerðum við hins vegar ekki. En mér fannst við alltaf hættulegar þegar við áttum löng innköst eða önnur uppstillt atriði, þá fannst mér alltaf vera tækifæri fyrir hendi. En við verðum að gera betur þegar við erum með boltann."

Ertu sannfærð um að þið spilið betur í seinni leiknum á þriðjudaginn?

„Já, við verðum að spila betur. Það er á okkar heimavelli, á Íslandi, svo ég er viss um að það verður betra," sagði Alexandra Jóhannsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert