Við höfðum grandskoðað íslenska liðið

Vesna Milivojevic lék mjög vel með Serbum gegn Íslandi í …
Vesna Milivojevic lék mjög vel með Serbum gegn Íslandi í dag. Ljósmynd/Vladimir Novak

Vesna Milivojevic var einn af bestu leikmönnum Serba gegn Íslendingum í Stara Pazova í dag og var í stóru hlutverki á miðjunni þegar liðin skildu jöfn, 1:1, í fyrri umspilsleiknum um sæti í A-deild undankeppni EM í knattspyrnu.

Vesna sagði við mbl.is eftir leikinn að lið Serbíu væri vanmetið af mörgum en hefði tekið miklum framförum.

„Við erum taldar minni máttar í öllum okkar leikjum. Fáir gera sér grein fyrir þeim hæfileikum sem búa í okkar liðin en við eigum gæðaleikmenn í mörgum sterkum félagsliðum í Evrópu. Sjálf er ég fædd í Ástralíu og spila þar en valdi að spila fyrir Serbíu. Við erum á hraðri uppleið sem landslið í heimi kvennafótboltans," sagði Vesna við mbl.is en hún leikur með Canberra United.

Þið stöðvuðuð mest allan sóknarleik íslenska liðsins með góðum leik á miðjunni, var það markmiðið hjá ykkur?

„Já, við höfðum skoðað íslenska liðið gríðarlega vel, grandskoðað síðustu tíu leiki þess, og við höfðum því góðar upplýsingar um hvernig best væri að pressa, sækja og verjast gegn því. Þjálfarinn og starfslið hans eiga hrós skilið fyrir geysilega góða undirbúningsvinnu fyrir þessa leiki."

Sannfærð um að við vinnum á Íslandi

Hvað heldurðu um seinni leikinn sem fer fram á gervigrasvelli á Íslandi? Þið sjáið væntanlega að þið getið staðið þeim á sporði og þetta sé 50/50 barátta?

„Hver einasti leikur er nýr leikur, nýjar 90 mínútur, svo maður verður að byrja upp á nýtt. Við getum ekki lifað á síðasta leik, fótbolti snýst um augnablikið og maður verður að standa sig á þeim stað og þeirri stund. En ég er sannfærður um að við munum gera það sem þarf og vinna leikinn."

Þið mættuð nokkrum heimsklassaleikmönnum í dag, leikmönnum frá Bayern München og Wolfsburg sem dæmi. Þekktirðu eitthvað til þeirra?

„Nei, ég þekkti enga þeirra en hafði heyrt af þeim og mætti þeim núna í fyrsta skipti á vellinum. Þetta var frábært tækifæri."

Er slæmt að missa Dinu Blagojevic í bann fyrir seinni leikinn?

„Já, hún er mjög mikilvægur leikmaður eins og allir hinir. En við erum með góða breidd og eigum góða leikmenn sem geta komið inn í liðið. Ég tel að okkar hópur sé afar sterkur," sagði Vesna Milivojevic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert