Vonsvikinn með jafntefli en við vinnum á Íslandi

Darisa Zecevic, vinstra megin á myndinni, og Þorsteinn Halldórsson þjálfari …
Darisa Zecevic, vinstra megin á myndinni, og Þorsteinn Halldórsson þjálfari Íslands á leiknum í Stara Pazova í dag með fjórða dómara leiksins á milli sín. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Dragisa Zecevic, þjálfari serbneska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var vonsvikinn með jafnteflið gegn Íslandi í dag en ætlar sér sigur í seinni leiknum á Kópavogsvelli á þriðjudaginn.

Viðureign liðanna í Stara Pazova í dag endaði 1:1 en það var fyrri umspilsleikurinn um sæti í A-deild undankeppni Evrópumótsins 2025.

„Við erum ekki ánægð með úrslitin í leiknum en stúlkurnar spiluðu frábærlega. Þær uppskáru ekki eins og þær hefðu verðskuldað," sagði Zecevic við mbl.is eftir leikinn.

„Niðurstaðan er okkur vonbrigði því við ætluðum okkur sigur. Við pressuðum framarlega og spiluðum sóknarleik og þó íslenska liðið sé gott náði það ekki að skapa einhverja hættu. Ég minnist þess ekki að það hafi fengið eitt einasta dauðafæri í leiknum.

En við horfum fram á við, þetta verður erfitt fyrst við unnum ekki heimaleikinn, en ég trúi því að við getum komist áfram. Stúlkurnar spiluðu gæðafótbolta og af miklu hugrekki, og ég held að við munum spila enn betur í seinni leiknum á Íslandi," sagði Dragisa Zecevic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert