Glódís svekkt út í UEFA

Þorsteinn Halldórsson og Glódís Perla Viggósdóttir á fréttamannafundinum í dag.
Þorsteinn Halldórsson og Glódís Perla Viggósdóttir á fréttamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fréttamannafundi í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ræddu Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari og Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði um aðstöðuleysið sem landsliðin búa við.

Ísland mætir Serbíu í öðrum leik liðanna í umspili A-deildar undankeppni EM 2025 kvenna á Kópavogsvelli klukkan 14.30 á morgun.

Eigum ekki völl til að spila á

„Þetta er bara veruleikinn sem við erum í og sýnir stöðu Knattspyrnusambands Íslands gagnvart  hlutum sem við þurfum að takast á við, með tilliti til bæði vallar og umgjarðar.

Þetta er bara raunveruleikinn sem við búum við, að við eigum ekki völl hérna til að spila á,“ sagði Þorsteinn.

Ekki er unnt að spila á Laugardalsvelli að vetri til og leikurinn á Kópavogsvelli fer fram um daginn vegna birtuskilyrða, með sérstakri undanþágu frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA. Ekki kom til greina að spila leikinn á morgun um kvöldið þar sem Kópavogsvöllur stenst ekki kröfur sambandsins um flóðlýsingu.

„Það kom aldrei til greina hjá UEFA að leikurinn færi fram að kvöldi til að mér skilst. Það var skilyrði að við yrðum að spila um daginn,“ útskýrði Þorsteinn.

Standardinn ekki jafn hár kvenna megin

Er Glódís Perla var spurð út í hvað henni þætti um að þurfa að spila á Kópavogsvelli á morgun sagði fyrirliðinn:

„Það sama í rauninni. Mér finnst það ekki líta vel út að þetta sé það sem við höfum upp á að bjóða.

Að sama skapi er ég svekkt út í UEFA að standardinn sé ekki jafn hár kvenna megin og karla megin, að það sé í lagi að við spilum við svona aðstæður. Að kröfurnar séu ekki þannig að það þurfi að finna völl og aðstæður sem uppfylla allar kröfur.

Það væri virkilega gaman að geta spilað þennan leik á morgun fyrir framan fullan Laugardalsvöll og hafa þjóðina á bak við sig. Það er auðvitað eitthvað sem myndi skipta okkur gríðarlega miklu máli.“

Höfum ekki upp á neitt betra að bjóða

Glódís Perla var þá spurð hvort henni hefði hugnast það betur að spila erlendis við betri aðstæður.

„Ég veit það ekki. Ég held að það hafi aldrei verið möguleiki. Ég þekki ekki alveg hvernig ferlið var en ég er viss um að það reyndu allir að gera sitt besta í þessum málum.

En staðan er svona núna og við höfum ekki upp á neitt betra að bjóða á Íslandi. Við munum spila þennan leik á morgun og klára hann í þessum aðstæðum,“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert