Lið Íslands þarf tíma og þolinmæði

Lidija Stojkanovic til vinstri, í skallabaráttu í leik með Fylki …
Lidija Stojkanovic til vinstri, í skallabaráttu í leik með Fylki gegn Stjörnunni. mbl.is/Golli

Lidija Stojkanovic, fyrrverandi landsliðskona Serbíu, leikmaður knattspyrnuliða HK/Víkings og Fylkis og síðar þjálfari hjá HK, starfar nú sem þjálfari U19 ára stúlknalandsliðs Serbíu.

Hún komst ekki á leik Serbíu og Íslands í Stara Pazova á föstudaginn þar sem hún er með sínar stúlkur í æfingabúðum í Antalya í Tyrklandi en fylgdist að sjálfsögðu með leiknum í sjónvarpi og var fús til að ræða um hann og seinni viðureign þjóðanna á Kópavogsvelli í dag við Morgunblaðið.

„Serbía var með frumkvæðið meirihluta leiksins og liðið sýndi að það er tilbúið til að spila í A-deildinni. Þjálfarateymið okkar leikgreindi íslenska liðið frábærlega og var með skýra áætlun um hvernig það ætlaði að ná í hagstæð úrslit. Heppnin var ekki með okkur, ég tel að stúlkurnar okkar hefðu verðskuldað sigur,“ sagði Lidija en fyrri leikur þjóðanna um sæti í A-deild undankeppni EM endaði 1:1.

Átti von á meiru

Hvað fannst þér um frammistöðu íslenska liðsins?

„Satt best að segja átti ég von á meiru frá því. En þetta er ungt lið sem þarf tíma og þolinmæði. Ég þekki alla leikmennina mjög vel, Sveindís (Jane Jónsdóttir), Karólína (Lea Vilhjálmsdóttir), Alexandra (Jóhannsdóttir) og margar fleiri eru gæðaleikmenn. Kjarninn í þessu íslenska liði mun spila saman næstu tíu árin.“

Hvað fannst þér um frammistöðu serbneska liðsins?

„Mér fnnst það spila vel. Það fór eftir leikplani Zecevic landsliðsþjálfara sem vill að þær spili sóknarfótbolta. Þær hefðu þurft að nýta marktækifærin. Þetta lið hefur leikið saman í talsverðan tíma, þær þekkja hver aðra mjög vel og það gæti verið lykilatriði fyrir Serbíu.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert