Gummi Torfa nýr formaður knattspyrnudeildar Fram

Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram.
Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram. Ljósmynd/Fram

Guðmundur Torfason, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, var á aðalfundi knattspyrnudeildar Fram í gær kjörinn formaður hennar.

Gummi Torfa eins og hann er ávallt kallaður, er goðsögn hjá Fram þar sem hann raðaði inn mörkum sem leikmaður og þjálfaði svo karlaliðið um skeið.

Guðmundur, sem er 62 ára gamall, er einn af mestu markaskorurum í íslenskum fótbolta og einn þeirra sem deilir markametinu í efstu deild en hann skoraði 19 mörk fyrir Fram í deildinni árið 1986. Guðmundur er fjórði markahæsti leikmaður Fram í deildinni með 46 mörk en hann lék sem atvinnumaður erlendis meirihluta ferilsins. 

Síðustu ár ferilsins lék Guðmundur með Fylki og sem spilandi þjálfari í Grindavík. Eftir það þjálfaði hann bæði Fram og ÍR.

Hann lék með Beveren, Winterslag og Genk í Belgíu, Rapid Vín í Austurríki, St. Mirren og St. Johnstone í Skotlandi og Doncaster á Englandi en hann skoraði samtals 104 deildamörk á ferlinum, heima og erlendis. Fyrir A-landslið Íslands skoraði hann fjögur mörk í 26 leikjum.

„Hann átti frábæran feril í bláu treyjunni sem leikmaður, deilir m.a. markameti efstu deildar og tók seinna við liðinu sem þjálfari líka. Það er því alvöru reynslubolti að taka við starfinu og það verður að teljast mikill fengur fyrir félagið.

Við óskum Guðmundi innilega til hamingju með kjörið,“ sagði í tilkynningu knattspyrnudeildar Fram.

Kosið var í stjórn knattspyrnudeildar Fram á aðalfundinum í Úlfarsárdal.

Stjórn knattspyrnudeildar Fram:

Guðmundur Torfason - formaður
Axel Arnar Finnbjörnsson - varaformaður
Daníel Arnar Magnússon - gjaldkeri
Kristinn Bjarnason - ritari
Alexander Þórsson - meðstjórnandi
Daði Arnarsson - meðstjórnandi
Elín Þóra Böðvarsdóttir - meðstjórnandi
Hrafn Garðarsson - meðstjórnandi
Sigurður Hrannar Björnsson - meðstjórnandi
Þorgrímur Haraldsson - meðstjórnandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert