Aron skaut Blikum í úrslit á síðustu stundu

Aron Bjarnason, sem skoraði sigurmarkið, með boltann í kvöld.
Aron Bjarnason, sem skoraði sigurmarkið, með boltann í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Breiðablik leikur til úrslita í deildabikar karla í fótbolta eftir sigur á Þór, 1:0, er liðin mættust í fyrri undanúrslitaleiknum í Boganum á Akureyri í kvöld.

Óhætt er að segja að sigurmark Breiðabliks hafi komið á síðustu stundu, því Aron Bjarnason skoraði á sjöundu mínútu uppbótartímans.

Hann slapp þá inn fyrir vörn Þórs og skoraði með snyrtilegri vippu yfir Aron Birki Stefánsson í marki Þórs eftir góða sendingu frá Viktori Karli Einarssyni.

Höfðu Þórsarar engan tíma til að svara og Breiðablik fagnaði dramatískum sigri.

Breiðablik mætir annað hvort Val eða ÍA í úrslitum 27. mars en þau mætast á Hlíðarenda á miðvikudag í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert