Draumabyrjun Gylfa hjá Val

Patrick Pedersen fagnar tímamótamarki sínu í kvöld.
Patrick Pedersen fagnar tímamótamarki sínu í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Valur fer vel af stað í Bestu deild karla í fótbolta en liðið vann nýliða ÍA, 2:0, í 1. umferðinni á heimavelli sínum á Hlíðarenda í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í deildarkeppninni hér á landi er hann gerði annað markið.

Valsmenn byrjuðu betur og sköpuðu sér nokkuð af færum á fyrstu tíu mínútunum. Jónatan Ingi Jónsson átti hættulegt skot á 7. mínútu en Árni Marinó Einarsson í marki ÍA varði vel. Gylfi Þór Sigurðsson átti skot úr þröngu færi skömmu síðar en aftur varði Árni.

Hann varði svo enn og aftur á tíundu mínútu er Jónatan átti hættulegt skot úr teignum. Árni kom hins vegar engum vörnum við á 38. mínútu þegar Patrick Pedersen stangaði boltann í netið af stuttu færi eftir að Orri Sigurður Ómarsson skallaði boltann á hann í markteignum.

Hundraðasta markið sem Pedersen skorar í efstu deild og hann er sjötti leikmaðurinn frá upphafi sem nær þeim áfanga.

Gylfi Þór Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Besta færi ÍA kom strax í kjölfarið. Viktor Jónsson átti hættulegan skalla að marki eftir fyrirgjöf frá Marko Vardic en Frederik Schram í marki Vals varði virkilega vel. Var staðan í leikhléi því 1:0.

Viktor Jónsson var aftur hársbreidd frá því að jafna leikinn á 54. mínútu er hann setti boltann rétt framhjá úr úrvalsfæri á fjærstönginni.

Valsmenn refsuðu því Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark á Íslandsmóti er hann kom heimamönnum í 2:0 á 59. mínútu með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir að Aron Jóhannsson skallaði boltann til hans.

Örskömmu síðar átti Gylfi fast skot í slána og var hársbreidd frá því að skora sitt annað mark, en Skagamenn sluppu með skrekkinn.

Eftir annað markið róaðist leikurinn töluvert, lítið var um færi og Valur sigldi sannfærandi sigri í höfn.

Valur 2:0 ÍA opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert