Ég var alltaf að fara að skora

Benóný Breki fagnar marki sínu í kvöld.
Benóný Breki fagnar marki sínu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Benóný Breki Andrésson, leikmaður KR, sneri aftur á völlinn eftir meiðsli í sigri liðsins á Stjörnunni, 3:1, í Garðabænum í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Benóný kom inná sem varamaður þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og gulltryggði sigur KR með því að skora þriðja mark liðsins í uppbótartíma.

„Tilfinningin er ógeðslega góð, geðveikt að fara hingað og ná í þrjú stig. Að skora í lokin var geðveikt, rosalega gott að vera kominn aftur á völlinn.“

KR var betri aðilinn í leiknum og vann að lokum sanngjarnan sigur.

„Mér fannst það. Auðvitað komu kaflar sem voru ekki góðir en annars fannst mér við bara vera betri nánast allan leikinn.“

Eins og áður kom fram kom Benóný inná sem varamaður seint í leiknum og skoraði þriðja mark KR.

„Skilaboðin voru bara þau að við ætluðum að liggja til baka og ég ætti ekki að vera í neinni óþarfa pressu, en samt að djöflast frammi. Svo átti ég bara að skora.

Ég var alltaf að fara að skora, það var aldrei spurning.“

KR-liðið er á toppi deildarinnar með sex stig eftir tvo leiki. Liðið er með nýjan þjálfara í Gregg Ryder sem virðist vera að búa til alvöru liðsheild úr liðinu.

„Mér finnst ég strax sjá mikinn mun á okkur frá því í fyrra. Við vorum virkilega flottir á undirbúningstímabilinu og Gregg er búinn að byggja upp mikinn dugnað í okkur, það er gott að fá þannig inn í klúbbinn.

Hann hefur mikið verið að vinna í þessum hlutum. Það er komin mikil ástríða í okkur, við fögnum litlu sigrunum, það skiptir miklu máli. Þegar við gerum það myndast alvöru liðsheild og við verðum bara góðir í sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert