Getur haft áhrif á sjálfstraust

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, á hliðarlínunni í kvöld.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega nokkuð svekktur eftir tap gegn KR, 3:1, á Samsung-vellinum í Garðabæ í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við erum bara allir svekktir. Við erum svekktir með nokkra hluti í leiknum sem við getum gert betur og við vitum það. Það er bara á mörgum sviðum í rauninni sem er svekkjandi.“

Það leit út á löngum köflum í leiknum eins og Stjarnan næði hreinlega ekki almennilegum takti. Mikið var um misheppnaðar sendingar og fleira sem olli því að lítið var um flæði í leik liðsins.

„Þetta var svolítið óþjált. Mér fannst við alveg vera að horfa upp og mér fannst við vera að taka ágætis ákvarðanir.

Það voru snertingar, sendingar og tæknifeilar sem gerðu okkur bara erfitt fyrir. Það breytir því ekki að mér fannst við vera inni í leiknum og vera að ógna þangað til þeir skora mark númer tvö. Þetta hefði alveg getað farið hvernig sem er fyrir það. Vel gert hjá þeim að klára sitt.“

Stjarnan er án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar en liðið tapaði fyrir Víkingi í fyrstu umferð.

„Ég veit náttúrlega ekki hvernig menn taka þessu. Tvö töp er ekkert hræðilegt en af því að það eru bara tveir leikir búnir finnst sumum það kannski þungt og það getur þá haft áhrif á sjálfstraust. 

Við þurfum bara að hafa trú á því sem við erum að gera og halda áfram að vinna í því sem við stöndum fyrir.“

Emil Atlason virtist eitthvað kveinka sér í leiknum og var tekinn af velli þegar nokkrar mínútur voru eftir. Jökull segist ekki eiga von á því að um alvarleg meiðsli sé að ræða. 

„Það var eitthvað sem hann fékk, ég er ekki alveg með það á hreinu hvað það var. Ég held að hann verði nú alveg í lagi en við vorum ekki að fara að taka neinn séns með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert