Vesturbæingar sóttu sanngjarnan sigur í Garðabæ

Axel Óskar Andrésson fagnar sínu fyrsta marki fyrir KR.
Axel Óskar Andrésson fagnar sínu fyrsta marki fyrir KR. Ljósmynd/Kristinn Steinn

KR vann sanngjarnan útisigur á Stjörnunni, 3:1, í annarri umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var kannski ekki sá fjörugasti en mikið jafnræði var með liðunum. Lítið var um færi framan af og liðunum gekk heldur illa að skapa sér góða stöður. Axel Óskar Andrésson fékk gott skallafæri á 23. mínútu eftir að Árni Snær Ólafsson varði fasta aukaspyrnu Arons Kristófers Lárussonar beint út í teiginn. Árni Snær gerði hins vegar vel, kom sér á fætur og varði skalla Axels virkilega vel.

Fyrsta markið kom svo á 28. mínútu. Atli Sigurjónsson átti þá sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar ætlaða Kristjáni Flóka Finnbogasyni en Árni Snær var fyrstur í boltann við vítateigslínuna. Hann hins vegar missti boltann klaufalega frá sér til Ægis Jarls Jónassonar sem átti ekki í vandræðum með að setja boltann í opið mark og koma KR í 1:0.

Ægir Jarl Jónasson fagnar fyrsta marki leiksins með Luke Rae.
Ægir Jarl Jónasson fagnar fyrsta marki leiksins með Luke Rae. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Leikurinn spilaðist svipað eftir mark KR-inga en þegar styttist í hálfleikinn komst meiri kraftur í heimamenn. Liðið uppskar eftir því á 44. mínútu en þá jafnaði Örvar Eggertsson metin í 1:1. Róbert Frosti Þorkelsson gerði þá virkilega vel og setti boltann inn fyrir á Emil Atlason sem var í góðu hlaupi hægra megin. Emil lagði boltann fyrir markið á Helga Fróða Ingason sem gerði frábærlega, setti boltann í fyrsta með hælnum lengra út til vinstri á Örvar Eggertsson sem kom á ferðinni og kláraði vel í fjærhornið. Staðan var í því jöfn í hálfleik en heilt yfir voru það gestirnir úr Vesturbænum sem voru aðeins betri aðilinn.

KR-ingar voru töluvert betri aðilinn og sköpuðu nokkrar fínar stöður, án þess þó að skapa sér nein dauðafæri. Varamaðurinn Guðmundur Baldvin Nökkvason fékk frábært færi fyrir Stjörnuna á 68. mínútu eftir frábæran undirbúnings annars varamanns, Óla Vals Ómarssonar. Guðmundur hins vegar setti boltann hátt yfir úr góðri stöðu í markteignum.

Stjörnumenn fagna eftir að Örvar Eggertsson jafnaði metin í 1:1.
Stjörnumenn fagna eftir að Örvar Eggertsson jafnaði metin í 1:1. mbl.is/Kristinn Steinn

KR-ingar náðu forystunni svo sanngjarnt á 81. mínútu. Aron Kristófer átti þá hornspyrnu frá hægri á fjærstöngina þar sem Theodór Elmar Bjarnason gerði vel í að skalla boltann aftur inn í markteiginn á Axel Óskar sem var aleinn á auðum sjó og skallaði boltann í netið.

Eftir markið féll KR-liðið aftar á völlinn og Stjarnan hélt meira í boltann. Gestirnir hins vegar vörðust virkilega vel og á fjórðu mínútu uppbótartíma setti Kristján Flóki Finnbogason boltann í gegn á varamanninn Benóný Breka Andrésson sem kláraði vel og tryggði gestunum sigurinn, 3:1. Frábærlega klárað hjá Benóný sem er að stíga upp úr meiðslum.

KR-ingar fara með sigrinum á topp deildarinnar með sex stig eftir tvo leiki. Stjarnan er hins vegar án stiga eftir jafn marga leiki sem verður að teljast vonbirgði fyrir Garðbæinga.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Stjarnan 1:3 KR opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert