„Við fljúgum sáttir heim“

Björn Daníel á ferðinni í dag
Björn Daníel á ferðinni í dag Thorir Tryggvason 8983357

Björn Daníel Sverrisson gat brosað í kampinn eftir leik KA og FH í Bestu-deild karla í dag. Björn Daníel leiddi sína menn í FH til sigurs og fengu Hafnfirðingar þar með sín fyrstu stig á tímabilinu.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur. FH komst í 2:0 en KA jafnaði leikinn áður en FH skoraði sigurmarkið. Lauk leiknum 3:2 eftir nokkurn sóknarþunga KA á lokakaflanum.

Björn Daníel kom sáttur í stutt viðtal eftir leik. „Þetta var virkilega góður sigur hjá okkur í dag. Það er alltaf mjög, mjög erfitt að koma á Akureyri og reyna að ná í stig. Það var mikilvægt að ná öllum stigunum í dag eftir að hafa tapað fyrsta leiknum í deildinni. Þetta var bara geggjað hjá okkur, skemmtilegur leikur og sviftingar í honum. Góður leikur fyrir áhorfendur, held ég, dálítið fram og til baka og pressa frá KA-mönnum í lokin. Við fljúgum sáttir heim.“

Já FH-ingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af veðri og færð og fara í háloftin báðar leiðir.

„Maður nær að komast heim í faðm fjölskyldunnar fyrir háttatíma. Þetta tók virkilega á og ég er alveg linur og löðrandi eftir leikinn. Það verður gott að komast heim.“

Fyrstu tveir leikirnir í ár hafa verið hálfgerðir kuldaleikir en aðstæður í dag voru góðar, nánast logn og sólskin á vellinum.

„Maður þakkar fyrir það en við sem vorum að spila leikinn fundum lítið fyrir kulda. Þegar maður sá veðurspána í vikunni þá var klárt að menn þyrftu að hita vel upp. Þetta var fínasta fótboltaveður og bara virkilega gaman.“

Þið komust í 2:0 í leiknum og voruð með góð tök á leiknum mest allan tímann fram að fyrra marki KA. Það var svo ekki fyrr en KA jafnaði leikinn að þið tókuð aftur við ykkur.

„Mér fannst við alveg vera með tökin í fyrri hálfleik, nánast alveg frá byrjun. Jöfnunarmark KA var auðvitað algjört skítamark, óheppilegt hjá okkur. Eftir það fannst mér við bregðast vel við en við skoruðum bara eitt mark. Ég hefði getað bætt öðru við en eins marks forskot getur verið hættulega lítið á lokakafla þegar andstæðingurinn leggur allt í sölurnar til að jafna leikinn. KA hefði alveg getað jafnað, þeir fengu færi til þess“ sagði Björn Daníel að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert