Víkingur meistari meistaranna eftir vítakeppni

Víkingur er meistari meistaranna 2024.
Víkingur er meistari meistaranna 2024. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bikarmeistarar Víkings eru meistarar meistaranna í kvennaflokki í fótbolta eftir sigur á Íslandsmeisturum Vals á heimavelli Valsliðsins á Hlíðarenda í Meistarakeppni KSÍ í kvöld. Réðust úrslitin í vítakeppni eftir 1:1-jafntefli í venjulegum leiktíma.

Víkingsliðið byrjaði með látum því Sigdís Eva Bárðardóttir skoraði fyrsta markið á 6. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs eftir sendingu frá Shaina Ashouri.

Eftir markið varðist Víkingsliðið mjög vel og Valskonum gekk mjög illa að reyna á Sigurborgu K. Sveinbjörnsdóttur í marki Víkings. Hinum megin átti Víkingur nokkrar fínar sóknir, án þess að reyna meira á landsliðsmarkvörðinn Fanneyju Ingu Birkisdóttur.

​Lillý Rut Hlynsdóttir úr Val og Selma Dögg Björgvinsdóttir úr …
​Lillý Rut Hlynsdóttir úr Val og Selma Dögg Björgvinsdóttir úr Víkingi eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Litu því fá færi dagsins ljós eftir markið í fyrri hálfleiknum og bikarmeistararnir fóru með eins marks forskot í leikhléið.

Amanda Andradóttir fékk gott færi til að jafna metin á 50. mínútu er hún slapp inn fyrir vörn Víkings en Sigurborg var snögg niður og varði vel frá henni.

Sigurborg kom hins vegar engum vörnum við tveimur mínútum síðar þegar Amanda skoraði beint úr aukaspyrnu af 25 metra færi stöngin inn.

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skýtur að marki Víkings í kvöld.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skýtur að marki Víkings í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Örfáum sekúndum síðar átti Freyja Stefánsdóttir skalla í stöngina á marki Vals og var upphaf seinni hálfleiks mun fjörlega en stór hluti fyrri hálfleiks.

Valskonur voru áfram líklegri og Nadía Atladóttir komst í tvígang nálægt því að skora gegn sínu gamla liði. Fyrst varði Sigurborg vel frá henni og í seinna skiptið hitti hún ekki boltann í dauðafæri.

Amanda átti svo skot rétt framhjá á 75. mínútu og virtist markið liggja í loftinu hjá heimakonum. Fimm mínútum síðar slapp Amanda svo ein í gegn en skaut í stöngina.

Inn vildi boltinn hins vegar ekki og var staðan jöfn eftir venjulegan leiktíma. Réðust úrslitin því í vítakeppni. Þar vann Víkingur að lokum eftir bráðabana og mikla spennu. 

Valur 5:6 Víkingur R. opna loka
91. mín. Valskonur eiga fyrstu spyrnuna. Fanndís byrjar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert