„Ég, Alfreð og Eiður Smári svekktum okkur stundum á þessu“

„Fyrir mér stendur HM upp úr en auðvitað var EM líka ótrúlega mikið ævintýri,“ sagði fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson í Dagmálum.

Emil, sem er 39 ára gamall, lagði skóna á hilluna síðasta sumar eftir afar farsælan atvinnumannaferil en er búsettur á Ítalíu núna og stefnir á umboðsmennsku í framtíðinni. 

Samgladdist liðinu og þjóðinni

Emil lék 73 A-landsleiki fyrir Ísland og var í stóru hlutverki þegar Heimir Hallgrímsson var með liðið en fékk lítið að spila þegar Lars Lagerbäck stýrði landsliðinu.

„Ég spilaði lítið á EM og það er alltaf þessi keppnismaður í manni sem vill spila en maður samgladdist auðvitað liðinu og þjóðinni,“ sagði Emil.

„Ég er í þessu til þess að spila og að fá að spila á HM var frábært. HM er stærri keppni en EM að mínu mati og þetta stendur upp úr á mínum landsliðsferli.

Auðvitað var maður svekktur inn á milli að fá ekki að spila en ég, Alfreð [Finnbogason] og Eiður Smári [Guðjohnsen] svekktum okkur stundum á þessu og fannst við eiga að spila meira.

Það gekk samt allt upp á mótinu og maður gat í rauninni ekki sagt neitt. Við vorum því í öðrum hlutverkum að styðja liðið eins og maður gat,“ sagði Emil meðal annars.

Viðtalið við Emil í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Emil Hallfreðsson, Alfreð Finnbogason og Eiður Smári Guðjohnsen.
Emil Hallfreðsson, Alfreð Finnbogason og Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert