Fannst við vera með öll völd fram að þriðja markinu

Alexander Helgi Sigurðarson með boltann í kvöld.
Alexander Helgi Sigurðarson með boltann í kvöld. mbl.is/Óttar

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var að vonum svekktur eftir tap gegn Víkingi, 4:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.

„Þetta er fyrst og fremst svekkelsi. Við ætluðum okkur klárlega miklu meira í þessum leik og það er kannski klisja að segja það en mér fannst við eiga meira skilið en 4:1 tap.

Maður getur ekki verið sáttur við frammistöðu þar sem við fáum á okkur fjögur mörk en heilt yfir gerðum við margt vel. Mér fannst við byrja leikinn mjög vel en missa svo tökin, við vorum ekkert sérstakir út fyrri hálfleikinn en komum svo mjög vel inn í seinni hálfleikinn. Þá var bara eitt lið á vellinum sem var líklegt til að skora og maður sá fyrir sér jöfnunarmarkið koma þegar við fáum svo á okkur þriðja og fjórða markið. 

Við fáum tvisvar sinnum á okkur tvö mörk með stuttu millibili og það er auðvitað áhyggjuefni ef við bognum eða brotnum svona við að fá á okkur mörk vegna þess að Víkingarnir voru ekki líklegir til að gera neitt í seinni hálfleik. Auðvelt að segja það en eftir þessi tvö mörk tókum við öll völd aftur en það er mjög auðvelt þegar þú ert 4:1 undir. Heilt yfir er þetta bara mikið svekkelsi.“

Blikarnir komu sterkir út í báða hálfleikina en eins og Halldór kemur inná þá náðu þeir kannski ekki alveg að láta kné fylgja kviði.

„Það er mjög svekkjandi. Mér fannst ekkert koma nein deyfð í okkur í seinni hálfleiknum reyndar en kannski er mig að misminna þetta. Mér fannst við vera með öll tök á þessum leik þangað til þeir skora þriðja markið. Þá er samt það mikið eftir ennþá að við verðum að vera meira kúl í hausnum því þetta fjórða mark gerir endanlega út um leikinn.“

Ísak Snær Þorvaldsson og Patrik Johannesen komu inná sem varamenn hjá Blikum í kvöld en þeir eru að snúa aftur á völlinn eftir meiðsli.

„Patrik er auðvitað að koma til baka eftir krossband sem eru erfið meiðsli svo við þurfum að vera mjög þolinmóðir með hann, passa vel uppá hann. Ísak þarf bara að koma sér í form, hann var í kviðslitsaðgerð núna í janúar og er bara að koma sér af stað þannig við gefum þessu nokkrar vikur. Menn sáu alveg í dag hvað Ísak getur og hann verður frábær fyrir okkur, það er nokkuð ljóst.“

Sex stig eftir þrjá leiki er uppskera Breiðabliks hingað til en Halldór segist klárlega hafa viljað meira.

„Við þurfum að sætta okkur við það en við ætluðum okkur að sjálfsögðu meira. Það samt vinnast engin mót í þriðju umferð, sem betur fer, þannig við þurfum bara að taka lærdóm af þessum fyrstu þremur leikjum og taka það með okkur í framhaldið.“

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert