Fyrst og síðast okkar klaufaskapur og óheppni

Ívar Örn Árnason, númer 5, í baráttunni í dag.
Ívar Örn Árnason, númer 5, í baráttunni í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þótt sólin hafi byrjað að skína á Akureyri í gær þá er hálfgert svartnætti á Brekkunni þar sem KA-menn ráða ríkjum. Lið KA hefur spilað þrjá heimaleiki í Bestu deildinni og uppskeran er aðeins eitt stig. Í dag lá KA 0:1 fyrir Vestramönnum og kom sigurmark gestanna í uppbótatíma í leik sem virtist dæmdur til að fara 0:0.

Einn fárra KA-manna sem gat verið virkilega sáttur með sinn leik var Ívar Örn Árnason en hann kom í viðtal eftir leikinn.

Ívar Örn sagðist drullupirraður eftir þessa frammistöðu. „Við vorum ekki að spila vel í dag og það er ekkert hægt að kenna neinu varðandi aðstæðurnar um. Mér fannst menn hreinlega ekki vera tilbúinir í þennan leik. Jafnvel má segja að við ættum ekki skilið að fá neitt út úr þessum leik.“

Spilamennska KA var kannski ekki góð en eitt stig á lið hefði verið mjög sanngjarnt. Vörn KA var sjaldan í nokkrum vandræðum. Það var helst í föstum leikatriðum þegar boltinn einhvern veginn datt niður í teig KA að hætta skapaðist. Gerðist það í tvígang áður en Vestri skoraði sigurmarkið í uppbótatíma leiksins.

„Mér fannst við reyndar verjast mjög vel í leiknum. Eitt svona kjánamark segir ekkert um okkar varnarleik í heildina. Þetta var fyrst og síðast okkar klaufaskapur og óheppni. Nú hlýtur bara eitthvað að fara að detta okkar megin í þessum leikjum.

Viðar Örn Kjartansson fylgist með.
Viðar Örn Kjartansson fylgist með. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það er einungis eitt stig komið hjá ykkur eftir þrjá fyrstu leikina, sem allir voru hér á KA-vellinum. Þetta er eitthvað sem þið sáuð ekki fyrir.

„Mér finnst við hafa verið að spila vel til þessa en uppskera minna en við unnum fyrir. Mér fannst góður andi og stígandi í þessu hjá okkur. Í dag var þetta bara lélegt. Það vantaði þó ekki mikið til að ná upp góðum leik. Mér fannst við leyfa Vestra að stjórna leiknum allt of mikið. Þegar við vorum svo með boltann þá vorum við hægir og hikandi gegn þéttri vörn Vestra.“

Næsti leikur er heimaleikur gegn ÍR í Bikarkeppninni og síðan bíða Víkingar í Fossvoginum á sunnudag.

„Nú er bara að fara að einblína á ÍR-leikinn. Það var gaman hjá okkur í bikarnum í fyrra og við viljum fara langt í ár. Við grenjum aðeins í dag en svo er það bara áfram gakk. Í deldinni er þetta bara orðið þannig að við þurfum að standa í lappirnar og berjast grimmilega fyrir öllu. Markmið okkar er að vera í efri hlutanum í ár og þá þurfum við að byrja að safna einhverjum stigum.“

Nú er Hallgrímur Mar ennþá frá keppni. Öll lið myndu sakna slíks leikmanns en eigið þið ekki að vera með mannskap til að fylla skarð hans?

„Grímsi er líklega okkar mest skapandi leikmaður og hann getur oft gert ótrúlega hluti. Það er klárt að við söknum hans krafta. Þótt við séum ekki búnir að fara mikinn á markaðnum þá eigum við nóg af leikmönnum til að leysa stöðurnar framar á vellinum. Þetta ætti ekki að vera vandamál. Við erum með ákveðna styrkleika sem þyrfti kannski að nýta betur. Elfar Árni og Viðar Örn eru mjög sterkir í teignum og kannski þurfum við að koma fleiri boltum inn í teig á þá í stað þess að reyna öll þessi langskot.“

Aðalhættan hjá KA kom einmitt eftir fyrirgjafir sem rötuðu á framherjana. Þau færi voru reyndar ekki mörg. „Ég held að með tímanum þá fari þessi díselvél okkar að malla“ sagði jaxlinn Ívar Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert