„Þetta kitlar mig þegar ég fer að sofa á kvöldin“

Víkingar fagna einu marka sinna í kvöld.
Víkingar fagna einu marka sinna í kvöld. mbl.is/Óttar

Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings, var kampakátur í leikslok eftir sigur á Breiðabliki, 4:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.

Danijel skoraði þriðja mark Víkings í leiknum en einhver vafi var á því hvort markið hafi í raun verið Danijels eða sjálfsmark hjá Damir Muminovic.

„Mér leið eins og ég hafi snert hann. Ég á eftir að sjá þetta aftur en mér leið eins og ég hafi snert hann.“

Sigur Víkings var í heildina frekar sannfærandi en liðið var heilt yfir betri aðilinn á vellinum.

„Þetta var geggjaður leikur frá A til Ö. Mér leið mjög vel með þetta inni á vellinum og við vorum einhvern veginn með hann í höndunum allan tímann. Þetta var bara mjög góður leikur.“

Fyrir tímabil var þetta einn þeirra leikja sem allir horfðu til sem stærstu leikja mótsins. Gert er ráð fyrir að bæði þessi lið verði að berjast við toppinn þegar uppi er staðið.

„Stórleikirnir, það eru alltaf leikir sem við þurfum að vinna til þess að vera bestir. Við sýndum það í dag.

Við erum með þessa sigurhefð í Víkinni. Það er eitthvað í andrúmsloftinu, þú finnur þetta bara þegar þú labbar inn í hamingjuna. Okkur líður eins og við séum ekki að fara að tapa leik og ég held að allir finni það.“

Það var frábær mæting í Víkina í kvöld en Danijel segir það vera algjörlega frábært að spila við svona aðstæður.

„Þetta er það sem mér finnst skemmtilegast. Þetta kitlar mig svo mikið bara þegar ég fer að sofa á kvöldin, að spila svona leiki með fullt af fólki í stúkunni. Ég held að fólk hafi líka séð það á mér, hvernig ég tjáði mig inni á vellinum og hvað mér leið vel.“

Danijel skoraði eins og áður sagði þriðja mark Víkings í leiknum og fagnaði því vel fyrir framan fulla stúku.

„Ég er bara búinn að gera þetta svo oft að maður er kominn með smá leið á þessu,“ sagði Danijel og hló.

„Nei ég er að grínast, þetta venst aldrei. Þetta er alltaf jafn gaman.“

Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings.
Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert