„Þýðir ekkert að leggjast niður og grenja“

Harpa Jóhannsdóttir hafði í nógu að snúast í dag.
Harpa Jóhannsdóttir hafði í nógu að snúast í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Mér fannst við vera flottar í fyrri hálfleik. Við þorðum að spila en svo þegar við fáum mark í andlitið fannst mér við aðeins detta niður, sem var algjör óþarfi,“ sagði Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/KA í knattspyrnu kvenna.

„Mér fannst við vera að halda vel í boltann og við vorum alveg að skapa tækifæri. Ef við hefðum nýtt þau veit maður aldrei hvað hefði gerst í þessum leik.

En þær eru bara með gæði, Amanda [Andradóttir] er með gæði og klárar sín færi. Þá verður þetta eltingaleikur eftir það,“ bætti Harpa við í samtali við mbl.is eftir 3:1-tap fyrir Íslandsmeisturum Vals í upphafsleik Bestu deildarinnar á Hlíðarenda í dag.

Byrjum á erfiðasta útivelli landsins

Þrátt fyrir tapið sagði hún leikmenn Þórs/KA ekki niðurdregna.

„Nei, alls ekki. Ég held að við getum alveg tekið jákvæða punkta úr þessu. Við erum að byrja á örugglega erfiðasta útivelli landsins. Það er fínt að byrja og máta sig við það og svo byggjum við bara ofan á það.

Það þýðir ekkert að fara að leggjast niður og grenja núna. Við höldum bara áfram og það er bara næsti leikur. Ef við spilum eins og við spiluðum á köflum hér þá hef ég engar áhyggjur af okkur.“

Erum með gæði fram á við

Spurð hvað mætti betur fara hjá Norðankonum í næstu leikjum sagði Harpa að lokum:

„Bara að halda áfram að þora að halda boltanum og þó að við fáum á okkur mark þá er það bara áfram gakk.

Við þurfum að koma boltanum í netið og þá er allt hægt.  Við erum með gæði fram á við þannig að það er bara að koma honum inn og halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert