Mun alls ekki gerast

Kristrún Ýr Holm fylgist með Anitu Lind Daníelsdóttur stanga boltann.
Kristrún Ýr Holm fylgist með Anitu Lind Daníelsdóttur stanga boltann. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ótrúlega svekkt,“ sagði Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir tap síns liðs fyrir Breiðabliki, 3:0, í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Keflavík er í neðsta sæti deildarinnar út af markatölu eftir fyrstu umferð. 

„Mér fannst þetta vera svekkjandi mörk sem við fengum á okkur. Við vorum inn í leiknum og áttum okkar færi, þannig að ég er svekkt. Niðurstaðan sýnir ekki beint rétta mynd af leiknum,“ sagði Kristrún. 

Keflavíkurliðið átti flotta kafla í leiknum og lék oft vel upp vallarhelming Breiðabliks. Í flestum spám er Keflvíkingum spáð falli, meðal annars hjá Morgunblaðinu og mbl.is. Kristrún segir sitt lið ekki á leiðinni niður. 

„Við ætlum okkur auðvitað ekki að fara niður. Það er alls ekki að fara að gerast og þessar spár eru bara spár. Við erum með okkar markmið og ætlum að einblína á það.“

Keflavík fær Stjörnuna í heimsókn næstkomandi laugardag. Kristrún segir liðið ætla að fara yfir leik kvöldsins, læra af honum og síðan gíra sig fyrir þann næsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert