Þær komu okkur ekkert á óvart

Eva Rut Ásþórsdóttir sækir að marki Þróttar í leiknum í …
Eva Rut Ásþórsdóttir sækir að marki Þróttar í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vitum að við skorum eiginlega alltaf í hverjum leik svo ég vissi að þetta myndi koma,“ sagði Eva Rut Ásþórsdóttir eftir 1:1-jafntefli við Þrótt í fyrstu umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við byrjuðum bara frekar vel en svo duttum við aðeins niður undir lok fyrri hálfleiks. Svo komum við bara fínar út í seinni hálfleik og það er gott að ná stigi út úr þessu.

Við spiluðum við þær á undirbúningstímabilinu og sáum nokkra leiki með þeim svo við vissum hvað við vorum að fara út í. Við vorum búnar að fara yfir þetta allt og ekkert sem kom okkur á óvart,“ sagði Eva Rut í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Fylkir lenti í öðru sæti í næstefstu deild í fyrra en liðið var síðast í efstu deild árið 2021. Liðið hefur lítið breyst frá því í fyrra en aðeins tvær breytingar voru á byrjunarliðinu í dag og í síðasta leik liðsins í fyrra. 

„Við erum með góðan hóp og ég treysti þessum stelpum hundrað prósent. Við erum tilbúnar og munum gera góða hluti,“ sagði Eva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert