Spáin er bara dægurfluga

Sæunn Björnsdóttir, leikmaður Þróttar, í leiknum í kvöld.
Sæunn Björnsdóttir, leikmaður Þróttar, í leiknum í kvöld. Kristinn Magnússon

„Ég held að jafntefli hafi verið sanngjarnt,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar í Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir 1:1 jafntefli gegn nýliðum Fylkis í Árbænum í kvöld.

„Fylkisliðið er að koma upp úr fyrstu deildinni og ætlar að sýna að þær geti spilað í Bestu. Það var mikill kraftur í þeim og sómi fyrir þær og þeirra leik.

Mér fannst við hafa ágætis stjórn í fyrri hálfleik, eigum góða kafla þar sem við náum að spila okkur í gegn og fá færi sem markmaðurinn gerir vel í að verja.

Það kom smá kuldahrollur þegar þær settu hann í slána í fyrri hálfleik sem á ekkert að þurfa að gerast.

Mér fannst við byrja ágætlega í seinni hálfleik og vera með stjórn en svo fer þetta út í "transition" leik og þær kasta öllu sínu fram til þess að skora og skora gott mark eftir horn, ekki eins vel gert hjá okkur,“ sagði Ólafur í viðtali við mbl.is eftir leikinn

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði liðsins, fór meidd af velli eftir aðeins stundarfjórðung en hún sneri sig.

„Auðvitað er slæmt að missa fyrirliðan út í meiðsli strax og Maríu sömuleiðis, hún var að hökta eftir spark á ristina. Það var vont að missa Álfu svona snemma en Lea kom inn á miðjuna fyrir hana og spilaði vel.“

Lea Björt Kristjánsdóttir, til vinstri, í baráttu við Tinnu Harðardóttir …
Lea Björt Kristjánsdóttir, til vinstri, í baráttu við Tinnu Harðardóttir í kvöld. Kristinn Magnússon

Þróttur missti fimm byrjunarliðsleikmenn í önnur félög, hérlendis og út en Ólafur er ekkert að hugsa um það sem áður var. 

„Það er fullt af lykilleikmönnum sem eru í liðinu núna. Það sem var í fyrra og hittifyrra eða þar áður er fortíð og við erum að byggja upp lið með þessum nýju lykilleikmönnum.“

Liðinu er spáð af flestum um miðja töflu en lenti í 3. sæti í fyrra og hefur verið á mikilli uppleið.

„Ég held að allir sem eru að spila eins og Þróttur sem lendir í þriðja sæti í fyrra, þar er metnaður og ef þú vilt gera betur þá á einhverjum tímapunkti þarftu að stíga eitthvað skref.

það sem spáin segir er bara dægurfluga sem fer inn um annað og út um hitt en til þess að vera ofar en í  sjötta sætið þá þurfum við að spila vel og safna stigum og við höfum sumarið til þess.

Ég byggi á góðum grunni sem Nik (Chamberlain) og aðrir þjálfarar sem hafa verið í Þrótti hafa byggt upp. Ég er ekki mikið fyrir að herma eftir svo ég er að setja mitt handbragð á liðið og leikinn,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert