Keflavík skaut Blika úr keppni (myndskeið)

Sami Kamel var hetja Keflvíkinga í kvöld
Sami Kamel var hetja Keflvíkinga í kvöld Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

1. deildarlið Keflavíkur sló Breiðablik úr leik í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta en leikið var í Keflavík. Leikurinn endaði 2:1 fyrir heimamenn.

Daninn Sami Kamel kom Keflvíkingum yfir með glæsilegri aukaspyrnu eftir 12 mínútna leik. Hann var svo aftur á ferðinni á 63. mínútu þegar hann skoraði annað glæsimark eftir undirbúning Dags Inga Valssonar. 

Kristófer Ingi Kristinsson minnkaði muninn fyrir Breiðablik korteri fyrir leikslok en nær komust gestirnir ekki og Keflavík fer óvænt í 16-liða úrslitin.

ÍH úr Hafnarfirði tók á móti Höfnum í Skessunni í dag. Heimamenn sigruðu 4:2 og eru eina liðið úr 3. deild þegar dregið verður í 16-liða úrslitin.

Brynjar Jónasson skoraði tvö mörk fyrir ÍH, Dagur Óli Grétarsson eitt og Gísli Kristjánsson eitt. Bergsveinn Andri Halldórsson og Anton Freyr Hauks Guðlaugsson skoruðu fyrir Suðurnesjamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert