Þjálfarar í bann og há sekt fyrir fölsun á leikskýrslu

Þjálfararnir tveir úrskurðaðir í þriggja mánaða bann.
Þjálfararnir tveir úrskurðaðir í þriggja mánaða bann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búi Vilhjálmur Guðmundsson þjálfari KFK og Ísak Ólason aðstoðarþjálfari Hvíta riddarans hafa verið úrskurðaðir í þriggja mánaða bann frá íslenskri knattspyrnu af KSÍ. 

Fá þeir bannið fyrir fölsun á leikskýrslu í leik liðanna í B-deild deildabikarsins fyrr í ár. Liðin leika bæði í þriðju deild en KFK úr Kópavogi fór upp og Hvíti riddarinn úr Mosfellsbæ hélt sér í deildinni í fyrra.

Benedikt Jóel Elvarsson og Sigurður Orri Magnússon leikmenn KFK voru í leikbanni sem spiluðu þrátt fyrir það leikinn. Voru þeir ekki skráðir á leikskýrslu heldur önnur nöfn sem spiluðu ekki. 

Guðbjörn Smári Birgisson, leikmaður Hvíta riddarans, var einnig í leikbanni en spilaði þrátt fyrir það leikinn. 

Hvíti riddarinn viðurkenndi að skýrslan hafi verið ranglega útfyllt með því að falsa nafn og kennitölu leikmannsins. 

KFK er þá sektað um 190 þúsund krónur en Hvíti riddarinn er sektaður um 160 þúsund krónur. 

Úrslit leiksins, 6:0 fyrir Hvíta riddarann, munu þó standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert